FVA býður upp á nýja áfanga í fjallgöngu og útivist



Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er heilsueflandi framhaldsskóli sem leggur metnað í að bjóða nemendum upp á heilsueflandi viðburði, heilsueflandi umhverfi og holla næringu. Í takt við stefnu skólans hefur glænýr valáfangi í fjallgöngum og útivist staðið nemendum til boða á þessari haustönn. Þetta kemur fram í tilkynningun frá skólanum.

Meginmarkmið áfangans er að efla áhuga nemenda á útivist og náttúru landsins ásamt því að auka færni þeirra og sjálfstæði þegar kemur að útivist, einkum fjallgöngum. Farið er yfir ýmis grunnatriði er varða undirbúning gönguferða og almenn öryggisatriði s.s. varðandi útbúnað, næringu og nesti, þjálfun, rötun og kortalestur ásamt umgengni við náttúruna. Undirtónn áfangans er að nemendur læri að meta náttúru Íslands og fjallgöngur sem áhugamál og heilsueflingu og kynnist ýmsum göngusvæðum landsins. Áfanginn er því að stórum hluta verklegur þar sem farið er í ýmsar fjall- og náttúrugöngur, einkum í nærumhverfinu. Í haust fóru nemendur m.a. upp Akrafjallið, upp að Glymi, á Smáþúfur í Esju, Móskarðshnúka og í frábæra dagsferð í Landmannalaugar. 

Áfanginn er kenndur utan stundatöflu einu sinni í viku og er þriggja eininga spannaráfangi sem nú er kenndur frá upphafi haustannar fram að vetrarfríi. Á vorönn stendur nemendum einnig til boða að velja áfangann og verður hann kenndur á einni spönn frá mars fram í maí. Áfanginn er stórskemmtileg viðbót við fjölbreytt námsframboð skólans og hefur jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og ekki síður félagslega heilsu nemenda, það er að minnsta kosti frekar erfitt að einangra sig í símanum á fjallgöngu. Við hvetjum nemendur til að grípa tækifærið, slást í hópinn næsta vor og kynnast dásemdum fjallanna.