Akraneskaupstaður hefur keypt eignir og land Akrakots sem er í Hvalfjarðarsveit í jaðri Akraness. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað. Samhliða þessum kaupum óskaði Akraneskaupstaður eftir formlegum viðræðum við Hvalfjarðarsveit um færslu sveitarfélagamarka og viðræðum um kaup eða makaskipti á landi í eigu Hvalfjarðarsveitar
Akraneskaupstaður fyrirhugar íbúabyggð sérbýla þ.e. einbýlishús og par-/raðhús þ.e. lágreist byggð 1-3 hæðir á landinu.
Ekki eru fyrirhuguð stærri fjölbýlishús á svæðinu en kaupin eru ætluð til að tryggja um 40% hlutfall sérbýla í bæjarfélaginu. Með þessu vil Akraneskaupstaður tryggja til langs tíma framþróun bæjarfélagsins í góðri sátt við Hvalfjarðarsveit.
Samningurinn um kaupin á landi Akrakots er með ákveðnum fyrirvörum m.a. um að samþykki Hvalfjarðarsveitar fáist fyrir því að sveitarfélagamörk á milli Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar verði breytt með þeim hætti að land Akrakots falli innan sveitarfélagamarka Akraness þ.e. allt landsvæði ofan við Ásfell og Fögrubrekku.
Í þessu felst að óskað er eftir að færsla sveitarfélagamarkanna nái einungis til hluta þess lands sem keypt er (sjá rauðlitað á mynd en ekki til svæðis sem merkt er grænlitað á mynd).
Akraneskaupstaður sendir tvö erindi til Hvalfjarðarsveitar, annars vegar er þess góðfúslega farið á leit við Hvalfjarðarsveit að taka upp viðræður við Akraneskaupstað um breytingu á sveitarfélagamörkum. Hins vegar er beiðni um viðræður um kaup eða makaskipti á landi af Hvalfjarðarsveit sem er í eigu Hvalfjarðarsveitar til tengingar inn á hið selda landssvæði. Sjá blálitað á mynd).
Akraneskaupstaður fyrirhugar íbúabyggð sérbýla þ.e. einbýlishús og par-/raðhús þ.e. lágreist byggð 1-3 hæðir á landinu. Ekki eru fyrirhuguð stærri fjölbýlishús á svæðinu en kaupin eru ætluð til að tryggja um 40% hlutfall sérbýla í bæjarfélaginu. Með þessu vil Akraneskaupstaður tryggja til langs tíma framþróun bæjarfélagsins í góðri sátt við Hvalfjarðarsveit.
Í því felast tækifæri til áframhaldandi góðs samstarfs sveitarfélaganna sem og hagræði fyrir bæði sveitarfélögin til hagsbóta fyrir íbúa beggja sveitarfélaga m.a. með vegtengingum o.fl. Ef fallist verður á sölu eða makaskipti munu sveitarfélagamörk breytast til samræmis.