Sendiherra Póllands á Íslandi kom færandi hendi í heimsókn sinni í BrekkubæjarskólaMonika Joanna Górska hóf störf í upphafi skólaársins 2022-2023 sem móðurmálskennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi.

Um 30 nemendur í Brekkubæjarskóla eru með pólsku að móðurmáli og mun Górska sinna móðurmálskennslu fyrir pólskumælandi nemendur skólans.

Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, kom nýverið í heimsókn í Brekkubæjarskóla ásamt eiginkonu sinni, Margherita Bacigalupo-Pokruszyńska. Í heimsókn sinni færðu þau skólanum lestrar- og vinnubækur á pólsku sem munu nýtast við kennsluna.

Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Brekkubæjarskóla og þar segir að pólskukennslan sé spennandi viðbót við kennsluna í Brekkubæjarskóla og verði gaman að fylgjast með framhaldinu.