Kristín Þórhallsdóttir, íþróttamaður Akraness undanfarin tvö ár, náði frábærum árangri á Girl Power boðsmótinu í kraftlyftingum sem fram fór í Frakklandi um s.l. helgi.
Alls var 12 keppendum boðið að taka þátt og voru veitt peningaverðlaun fyrir verðlaunasæti.
Sterkustu konum franska landsliðsins var boðið að taka þátt, auk 6 keppenda í fremstu röð í Evrópu.
Keppendur tóku þátt í því að vekja athygli á baráttuna gegn brjóstakrabbameini og fór fram söfnun fyrir það málefni samhliða keppninni.
Kristín, sem keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness náði frábærum árangri á mótinu í Frakklandi. Hún varð í öðru sæti og fékk 1.500 Evrur í verðlaunafé.
Næsta stóra verkefni hjá Kristínu er Evrópumeistaramótið (EM) sem fram fer í Póllandi í desember. Þar hefur Kristín titil að verja.
Mótið í Frakklandi var því hluti af undirbúningi Kristínar fyrir EM og voru bætingar því ekki aðalmarkmið hennar. Þrátt fyrir það náði hún að bæta árangur sinn í réttstöðulyftu um 12,5 kg. þegar hún reif upp 242,5 kg. í einni lyftunni.