Skagamenn úr leik í bikarkeppni KKÍ



Körfuknattleikslið ÍA í karlaflokki hefur einu sinni leikið til úrslita um bikarmeistaratitilinn og það er ljóst að ÍA mun ekki leika til úrslita í byrjun næsta árs eftir 77-63 tap gegn liði Selfoss í 32-liða úrslitum keppninnar í gærkvöld.

Skagamenn voru án þriggja lykilmanna í leiknum í gær og meðaldur leikmannahópsins var rétt tæplega 20 ár.

Þórður Freyr Jónsson fyrirliði ÍA og erlendu leikmennirnir Jalen Dupree og Gabriel Adersteg voru ekki á leikskýrslu í gær – en þeir hafa verið í lykilhlutverki í upphafi tímabilsins.

Selfoss náði góðu forskoti í 1. leikhluta 27-18 og þann mun náðu Skagamenn ekki að brúa.

Davíð Alexander Magnússon var stigahæstur í liði ÍA með 23 stig og Lucien Thomas Christoffs var með 19 stig.

Næsti leikur ÍA er gegn Ármenningum í 1. deild Íslandsmótsins – og fer hann fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu, föstudaginn 21. okt. og hefst hann kl. 19:15.

ÍA lék til úrslita um bikarmeistaratitilinn árið 1996 gegn liði Hauka – þar sem að Hafnfirðingar fögnuðu sigri.