Karlalið ÍA í körfuknattleik hefur farið vel af stað á keppnistímabilinu á Íslandsmótinu. Á undanförnum árum hefur góður grunnur verið lagður í uppbyggingarstarfi félagsins.
Liðið er að stórum hluta skipað ungum og efnilegum leikmönnum úr yngri flokka starfi ÍA.
Fjölmargir áhorfendur mættu á leik ÍA gegn Ármanni í kvöld og greinilegt að liðið vekur áhuga hjá áhugafólki um körfubolta. Þrátt fyrir góða strauma og góða mætingu náðu leikmenn ÍA sér ekki á strik gegn Ármenningum – þrátt fyrir góða baráttu.
Ármenningar náðu 9 stiga forskoti í 1. leikhluta, 29-20, og Skagamenn náðu aðeins að skora 9 stig í 2. leikhluta og staðan var 49-27 í hálfleik fyrir gestina úr Reykjavík.
Heimamenn héldu jöfnu við gestina í 3. leikhluta sem fór 24-24 en gestirnir skoruðu 24 stig gegn 15 stigum heimamanna í 4. og lokaleikhlutanum – lokatölur 97-66.
Anders Gabriel P. Adersteg og Jalen David Dupree voru stigahæstir í liði ÍA með 16 stig hvor. Davíð Alexander Magnússon skoraði 10 stig.
Leikurinn var fimmti leikur ÍA á Íslandsmótinu. ÍA er í 8. sæti með 2 sigra og 3 tapleiki.
Skagafréttir voru á leiknum í kvöld og hér má sjá myndasyrpu frá leiknum.