Arnór Smárason kynntur til leiks hjá KFÍA með skemmtilegu myndbandi



Arnór Smárason skrifaði í dag undir samning við Knattspyrnufélag ÍA – og mun hann leika með liðinu næstu tvö árin en samningurinn gildir út leiktíðina 2024.

Arnór er varð 34 ára þann 7. september s.l. en hann lék með yngri flokkum ÍA áður en hann hélt í atvinnumennsku aðeins 16 ára árið 2004.

Skagamaðurinn hefur aldrei leikið með meistaraflokki ÍA en Arnór mun að flytja á Akranes með fjölskyldu sína.

Arnór gekk í raðir hollenska liðsins Heerenveen í Hollandi árið 2004. Hann lék með unglingaliðum félagsins þar til hann fékk tækifæri með aðalliðinu árið 2008. Hann lék með Heerenveen fram til ársins 2010. Hann fór til danska liðsins Esjberg og lék þar í þrjú ár (2010-2013), þaðan fór hann til Helsingborg í Svíþjóð (2013-2015).

Arnór lék sem lánsmaður með rússneska liðinu Torpedo í Moskvu árið 2015 en þaðan færði hann sig um set í Svíþjóð þegar hann samdi við Hammarby í Stokkhólmi.

Þar var Arnór í 2 tímabil (2016-2018). Á árunum 2018-2020 lék Arnór með Lilleström í Noregi en hann hefur leikið með Val undanfarin tvö tímabil.

Arnór hefur leikið 26 A-landsleiki og skorað í þeim 3 mörk. Hann lék 37 leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði alls 9 mörk fyrir yngri landsliðin.