Hákon Arnar Haraldsson skrifaði nafn sitt í sögubækurnar í gær með frábærum leik sínum fyrir danska liðið FCK gegn þýska stórliðinu Dortmund í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu.
Hákon Arnar, sem er fæddur árið 2003, var í byrjunarliði FCJ og lét mikið að sér kveða. Hann jafnaði metin fyrir FCK með flottu marki í 1-1 jafntefli á Parken í Kaupmannahöfn. Aðeins þrír íslenskir leikmenn höfðu fyrir leikinn í gær skorað í Meistaradeild Evrópu og Hákon Arnar sá fjórði sem nær þeim áfanga.
Það er áhugaverð staðreynd að tveir af þessum fjórum íslensku leikmönnum eru úr röðum ÍA og léku upp yngri flokka félagins. Eiður Smári Guðjohnsen, Alfreð Finnbogason, Arnór Sigurðsson og Hákon Arnar Haraldsson hafa allir skorað í meistaradeild Evrópu. Eiður er með 7 mörk, Alfreð 2 en Skagamennirnir eru með eitt mark hvor.
Hákon Arnar var valinn maður leiksins í gær. Hann vakti einnig athygli fyrir hlaupagetu sína í leiknum en hann hljóp tæplega 14 kílómetra – sem er með því mesta hjá leikmanni í knattspyrnuleik.
Ísak Bergmann Jóhannesson kom inná sem varamaður í leiknum í gær og var áberandi á þeim tíma sem hann var inni á vellinum.
Maður Leiksins 🔹 Hákon Haraldsson 🇮🇸#UCL #fcklive #copenhagen pic.twitter.com/AwQDeYYrfD
— F.C. København (@FCKobenhavn) November 2, 2022