Sundfólk úr röðum ÍA náði frábærum árangri á Extramóti Sundfélags Hafnarfjarðar sem fram fór nýverið í Ásvallalaug. Mótið var fjölmennt en alls tóku 280 keppendur þátt og komu þeir frá 15 félögum.
Sundmótið er eitt af sterkustu mótum sem er haldið er hér á landi á haustin. Sterkustu sundmenn landsins nýta mótið til undirbúnings fyrir íslandsmeistaramótið sem er í lok nóvember.
Frá ÍA tóku 15 keppendur þátt og var uppskeran glæsileg, 15 verðlaun, 5 Akranesmet, persónuleg met, landsliðslágmörkum náði ásamt ÍM lágmörkum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness.
Krakkarnir stóðu sig mjög vel og alltaf gaman að koma í Ásvallaug til að keppa en sundfólkið okkar er mjög vant þessari laug þar sem við höfum fengið að æfa í lauginni hjá SH á laugardögum og er laugin ein af okkar uppáhalds laugum til æfinga og keppni.
Einar Margeir Ágústsson, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Enrique Snær Llorens, Guðbjarni Sigþórsson og Kristján Magnússon náðu að landa verðlaunum á þessu móti, 2 gull, 6 silfur og 7 bronsverðlaun.
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir synti undir landsliðslágmarki fyrir næsta tímabil þegar hún synti 100m skriðsund á 58.18 sem skilaði henni 2. sæti í fullorðinsflokki og var það 8. besta sundið á mótinu.
Einar Margeir setti Akranesmet í fullorðinsflokki í 200m skriðsundi á tímanum 1.56.06, gamla metið átti Jón Þór Hallgrímsson á 1.56.45 frá árinu 2011. Einar bætti líka Piltametið í 50m skriðsundi þegar hann synti á 23.76, hann átti metið sjálfur frá því í fyrra (24.69). Gaman að segja frá því að Kristján Magnússon synti líka undir gamla metinu um helgina á tímanum 24.34.Einar bætti einnig sitt gamla piltamet í 100m skriðsundi þegar hann synti á tímanum 52.68, gamla metið var 53.16 frá því í haust.
Alex Benjamín Bjarnason, Víkingur Geirdal, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Einar Margeir Ágústsson, Iris Arna Ingvarsdóttir og Aldís Lilja Viðarsdóttir bættu sig í öllum sínum sundum um helgina.
Viktoria Emilia Orlita náði sínu fyrsta IM lágmarki fyrir Íslandsmeistramótið í 50 m skriðsundi.