Öflugir LED upplýsingaskjáir verða settir upp í íþróttahúsinu við Vesturgötu

Körfuknattleiksfélag Akraness lagði nýverið fram óskir til bæjarráðs Akraness að keyptir verði tveir öflugir LED skjáir í íþróttahúsið við Vesturgötu. 

Slíkir upplýsingaskjáir eru til staðar í flestum íþróttamannvirkjum í dag og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til framkvæmda körfuboltaleikja á vegum Körfuknattleikssambands Íslands. 

Í greinargerð frá félaginu kemur fram að slíkir LED upplýsingaskjáir geti nýst í margvísleg verkefni – þar á meðal morgunstund Brekkubæjarskóla.

Bæjarráð samþykkti nýverið tillögu frá skóla – og frístundaráði þess efnis að kaup á LED skjám fari í ferli. Bæjarstjóra hefur verið falin úrvinnsla málsins. 

Í upplýsingum frá Körfuknattleiksfélaginu kemur fram að stærri LED skjárinn sé um 15 fermetrar að stærð – og sá minni er um 6 fermetrar.

Kostnaðurinn við þessa framkvæmd er áætlaður á bilinu 5 – 7 milljónir kr.