Þrjár grenndarstöðvar verða settar upp í fyrstu lotu hjá Akraneskaupstað

Á næstu misserum verður gerð meiri krafa til bæjarbúa, fyrirtækja og stofnana á Akranesi í sorphirðumálum.

Ný lög um meðhöndlun úrgangs taka gildi um næstu áramót. 

Þá verður komið á samræmdu flokkunarkerfi yfir allt landið.  Íbúum landsins er þá skylt að flokka úrgang í fjóra flokka að lágmarki, pappír og pappa, plastumbúðir, almennt sorp og matarleifar. 

Bæjarfélög hafa á undanförnum þremur árum haft tíma til að undirbúa þetta ferli og nú þegar eru Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur með slíka flokkun í gangi á sínum svæðum. 

Á fundi skipulags og umhverfisráðs nýverið var lögð fram tillaga um staðsetningu á þremur grenndarstöðvum á Akranesi – þar sem að íbúar geta komið til skila úrgangi til flokkunar. 

Í fyrstu lotu verður undirbúið að setja upp grenndarstöð við Vesturgötu 27 á svæði við Bíóhöllina, einnig við Dalbraut 1 þar sem að Tónlistarskólinn, Krónan, Bókasafn Akraness og ýmis önnur fyrirtæki eru til staðar og sú þriðja verður á bílastæði við Jörundarholt en ekki kemur fram nákvæm staðsetning á því bílastæði í fundargerð ráðsins. Gera má ráð fyrir að nægt rými sé á því bílastæði – hvar svo sem það er.

Í grenndarstöðvunum verður móttaka á úrgangsefnum á borð við málma, pappír, plas og textíl (fatnaður).