Skagakonan Guðrún Valdís Jónsdóttir var á dögunum valin rísandi stjarna ársins þegar Nordic Women in Tech Awards voru tilkynnt.
Guðrún Valdís er uppalinn á Akranesi og var um margra ára skeið einn efnilegasti markvörður landsins í knattspyrnu. Hún stundaði nám í hinum virta bandaríska háskóla Princeton University en hún útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá þeim skóla árið 2018.
Foreldrar Guðrúnar eru Sigríður Kr. Valdimarsdóttir og Jón Helgason sem hafa verið búsett á Vesturgötu 105 á Akranesi um margra ára skeið.
Í ítarlegri grein sem Viðskiptablaðið birti í dag segir að um 400 konur frá Norðurlöndunum hafi fengið tilnefningu í ýmsu flokkum. Alþjóðleg dómnefnd skipuð tæknifólki valdi síðan sigurvegarana – en veitt voru verðlaun í tíu mismunandi flokkum.
Guðrún Valdís Jónsdóttir, er öryggisstjóri og öryggisráðgjafi hjá Syndis. Hún er einnig öryggisstjóri Nova og situr í stjórnum félaganna UAK og Vertonet.
„Þetta kom mér virkilega á óvart. Ég bjóst alls ekki við þessu enda virkilega flottar og öflugar konur sem voru einnig tilnefndar til verðlaunanna. Það er ótrúlegur heiður að hafa fengið svona viðurkenningu á mínum störfum á alþjóðlegum vettvangi og er mér mikil hvatning. Mér þykir virkilega vænt um þessa viðurkenningu, sérstaklega þar sem aukin þátttaka kvenna í tækni- og netöryggisgeiranum er mér hjartans mál. Ég vona líka innilega að þetta virki sem hvatning fyrir aðrar ungar konur í tækni- og öryggisbransanum,“ segir Guðrún Valdís í viðtal við VB.
Guðrún Valdís var eina íslenska tilnefningin sem hlaut verðlaun í ár. Aðrar konur sem tilnefndar voru frá Íslandi eru Paula Gould, Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, Ingunn Henriksen, Árdís Rut Einarsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Alondra Silva Muñoz, Anna Karlsdóttir, Violette Rivière. Þá voru íslensku félagasamtökin Vertonet tilnefnd til verðlauna sem og fyrirtækið Crowberry Capital.