Breytingar framundan á starfsemi Smiðjuloftsins

Starfsemi Smiðjuloftsins mun hætta fljótlega eftir næstu áramót en Smiðjuloftið hefur verið starfrækt frá árinu 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Smiðjuloftinu. 

Smiðjuloftið hefur nú verið starfandi í á fimmta ár, eða frá því við hjónin opnuðum aðstöðuna okkar að Smiðjuvöllum 17 á Akranesi árið 2018. Smiðjuloftið var opnað með margþætta starfsemi í huga þar sem markmiðið var að sameina undir einum hatti þau fjölmörgu verkefni og hugmyndir sem við hjónin höfðum, ýmist í framkvæmd eða á framkvæmdastigi. 

Stór hluti þess að Smiðjuloftið var opnað var að tryggja Klifurfélagi ÍA aðstöðu til æfinga en félagið var á þessum tímapunkti á hrakhólum, með fjölmarga iðkendur og ekkert land í augsýn varðandi húsnæði fyrir félagið. Því var að duga eða að drepast. 

Við hjónin lögðum mikla vinnu og fjármuni í að standsetja húsnæðið, og nutum aðstoðar góðra vina og vandamanna, og á vordögum 2018 opnaði Smiðjuloftið – Afþreyingarsetur á Akranesi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og ótrúlega margt skemmtilegt gerst á Smiðjuloftinu á þessum tíma. 

Nú er komið að tímamótum hjá okkur á Smiðjuloftinu og hugur okkar hjóna leitar annað og við höfum ákveðið að þróa starfsemina í aðra átt. Fljótlega eftir áramót mun starfsemi Smiðjuloftsins því hætta að Smiðjuvöllum 17.

Smiðjuloftið og Klifurfélag ÍA hafa átt í farsælu samstarfi við Akraneskaupstað til að tryggja iðkendum ÍA aðstöðu til æfinga. Félögin hafa verið í viðræðum við Akraneskaupstað undanfarið ár til að tryggja klifurfélaginu æfingaaðstöðu til lengri tíma, og er það von okkar að það mál leysist áður en húsaleigusamningur að núverandi aðstöðu að Smiðjuvöllum 17 rennur út í byrjun næsta árs.