Frábær árangur hjá sundfólki úr ÍA á Íslandsmótinu í 25 metra laug 

Keppendur frá ÍA náðu frábærum árangri á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug sem fram fór í Ásvallalaug í Hafnarfirði um s.l. helgi. 

Uppskeran var ríkuleg, einn Íslandsmeistaratitill, tveir unglingameistaratitlar, 15 verðlaun alls, og 8 ný Akranesmet voru sett.

Mótið er eitt það stærsta í sundíþróttinni á hverju ári. Tæplega 180 keppendur tóku þátt frá 15 félögum. Nýtt keppnisfyrirkomulag var á þessu móti þar sem að unglingameistaramótið fór fram fyrir hádegi og Íslandsmeistaramótið fór fram síðdegis.

Alls tóku 10 keppendur frá ÍA þátt: Enrique Snær Llorens Sigurðsson, Alex Benjamin Bjarnason, Einar Margeir Ágústsson, Kristján Magnússon, Guðbjarni Sigþórsson, Ingibjörg Svava Magnúsardóttir, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Ásdís Erlingsdóttir, Íris Arna Ingvarsdóttir og Viktoria Emilia Orlita.

Sundfólkið frá ÍA var með glæsilegar bætingar og létu mikið að sér kveða á mótinu. Í opna flokki mótsins var ÍA í fjórða sæti í samanlögðum verðlaunum og í þriðja sæti í samanlögðum verðlaunum í unglingaflokki drengja.

Enrique Snær fagnaði Íslandsmeistaratitli í 400 m fjórsundi á tímanum 4.28.78 mín eftir mjög vel útfært sund, þar var hann fremstur allt sundið.

Í 200 m fjórsundi vann hann silfur á nýju Akranesmeti á tímanum 2.05.69 mín, hann átti sjálfur gamla metið frá því í fyrra á 2.07.84 mín. Hann vann líka silfur eftir spennandi baráttu um þrjú efstu sætin.

Guðbjörg Bjartey varð unglingameistari í 50m skriðsundi á 26.51 sek, og í þriðja sæti í sama sundi í fullorðinsflokki. Hún vann brons í unglingaflokki í 200 m skriðsundi.
Hún átti líka mjög kraftmikinn endasprett í 4×100 m fjór- boðsundi þar sem hún synti 100 m skriðsundi á 56.73 sek., sem var hraðasti 100m spretturinn í boðsundinu.

Einar Margeir varð unglingameistari í 100 m fjórsundi á 58.94 sek. Hann vann til bronsverðlauna í 50 m og 100 m bringusundi í fullorðinsflokki og silfur í 50 m bringusundi í unglingaflokki.

Kristján vann silfur í unglingaflokki og brons í fullorðinsflokki í 50 m skriðsundi á tímanum 23.88s sek.

Boðsundin gengu einnig vel hjá ÍA.

Strákarnir unnu silfur í 4×100 m skriðsundi, brons í 4×200 m skriðsundi og 4×50 m fjórsundi, 4 sæti í 4x100m fjórsundi. Í öllum 4 boðsundunum voru sett Akranesmet.
Sveitirnar skipuðu þeir Guðbjarni, Einar Margeir, Kristján og Enrique.

Í blandaðri sveit vann ÍA til bronsverðlauna í 4×50 m skriðsundi og 4. sæti í 4×50 m fjórsundi.
Í þessum sundum var einnig sett Akranesmet og sveitina skipuðu þau Einar Margeir, Kristján, Bjartey og Ingibjörg.

Viktoria Emilia tók þátt í sínum fyrsta ÍM og setti persónuleg met í öllum sínum þrem sundum.
Alex Benjamin synti líka af miklum krafti og setti personlegt met í 100m skriðsundi og 50m flugsundi.

Írís Arna átti tvo góða spretti í boðsundi og Ásdís synti líka einn boðsundsprett og stóð sig vel.

Akranesmet um helgina:

Fullorðinsflokkur:

Enrique Snær: 200m fjórsund á 2.05.99 mín. Eldra metið átti hann sjálfur á tímanum 2.07.84 mín. frá 2021.

Guðbjarni: 200m skriðsund á 1.56.04 mín. Eldra metið átti Einar Margeir á 1.56.09 frá 2022.

4×100 m skriðsund á tímanum 3.31.16 mín, Einar Margeir, Guðbjarni, Enrique Snær, Kristján.
Gamla metið var 3.32.54 en það áttu þeir Jón Ingi, Ágúst, Birgir Viktor, Jón Þór frá 2011.
4×200 m skriðsund á 7.54.51 mín. Einar Margeir, Guðbjarni, Enrique Snær, Kristján.
Gamla metið var 8.01.07 frá 2011 og það áttu þeir Jón Ingi, Birgir Viktor, Ágúst, Jón þór

4×50 m fjórsund á tímanum 1.46.73 mín. Kristján, Einar Margeir, Enrique Snær, Guðbjarni.
Gamla metið var 1.47.79 mín. og það áttu þeir Jón Ingi, Ágúst, Birgir Viktor, Jón Þór.

4x50m fjórsund blönduð sveit synti á 1.54.74 mín, Kristján, Einar Margeir, Bjartey, Ingibjörg Svava. Gamla metið var 1.56.07 mín. og það áttu þau Enrique Snær, Einar Margeir, Guðbjörg Bjartey og Ragnheiður Karen.

4x50m skriðsundi blönduð sveit á tímanum 1.42.82 mín, Einar Margeir, Kristján, Bjartey, Ingibjörg Svava. Gamla metið var 1.44.08 og það áttu Enrique, Sindri Andreas, Bjartey, Ragnheiður Karen.

Unglingaflokkur;

Kristján Magnússon 100 m baksund á tímanum 59.77 sek. Gamla metið átti Jón Ingi 59.97 sek. frá 2011.