Jógaverurnar Marta Karen og Hulda Margrét bjóða upp á áhugaverð námskeið á Akranesi  

Á næstunni hefjast áhugaverð námskeið í aðstöðu Sjúkraþjálfun Akraness við Suðurgötu 126. 

Þar ætla þær Marta Karen Kristjónsdóttir og Hulda Margrét Brynjarsdóttir, stofnendur Jógaverur, að bjóða upp á jógaæfingar. Þar verður boðið upp á hlýlegt rými fyrir íbúa Vesturlands þar sem hægt er að mæta í líkamsrækt í bland við andlega iðkun. 

Með jógaæfingum er hægt að styrkja líkamann með eigin líkamsþyngd á jógadýnu og þjálfa hugann með því að líta inn á við og kynnast eigin líðan. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Huldu og Mörtu en kynningartími fer fram í desember  

Skráning fer fram á fésbókarsíðu Jógavera – en einnig er hægt að hafa beint samband við Mörtu (780-7100) og Huldu (774-3599)

 

Hulda og Marta segja að Jógavera sé mjög fjölbreytt nálgun á margvíslegan heilsuágóða.

„Í jóga færðu tækifæri til að tengja við líkamann (og alla líkamana, ef því ber að skipta), sem hefur jafnframt heilandi áhrif. Að anda, finna og slaka inn í þægindi sem og óþægindi er merkilegur hæfileiki sem sannarlega er hægt að þróa með jógaiðkun. Í jógatíma færðu rými til að upplifa hreyfingar líkamans sem og hreyfingar hugans. Svo ertu hvött/hvattur til að notfæra þér mátt öndunar. Allt eru þetta hluti af hinni svokölluðu núvitund; að vera með því sem er, eins og það er,“ segir Hulda og Marta bætir við.

„Jógavera er allskonar. Hún er af öllum stærðum, gerðum og kynjum. Hún er á öllum aldri og býr yfir allskonar mismunandi eiginleikum – hún er eins og hún er. Það er engin ein fullkomin jógavera, heldur er ófullkomleiki hennar það sem gerir hana að veru. Það er viðhorf hennar sem gerir hana að jógaveru. Jóga er mikið meira en æfingar og stöður; jóga er lífsstíll hæglætis, meðvitundar, og þakklætis.“

Hulda Margrét segir að jóga sé iðkun sem færir henni ákveðna ró og víðsýni, sérstaklega þegar hún upplifi mótstöðu og áskoranir í lífinu.

„Ég spilaði fótbolta í mörg ár hjá ÍA þar sem við vorum einhver árin sendar í jóga til Böddu á Akranesi. Í fyrsta jógatíma fann ég að þetta hafði mjög góð áhrif á mig, ekki bara til að fyrirbyggja meiðsl og liðka líkamann, heldur var leiðbeinslan í tímunum þannig að mér leið vel. Það var eitthvað við mýktina og frelsið. Ég hætti að stunda jóga nokkru áður en ég varð móðir en í gegnum foreldrahlutverkið og virðingarríkt uppeldi hef ég einhvernveginn alltaf komið aftur að jóganu. Það er svo margt við þennan lífsstíl sem helst í hendur við þá stefnu sem ég hafði mótað mér í uppeldinu, hæglæti, samskipti og tillitssemi. Það sem ég hef einna helst lært í gegnum uppeldið og jóganámið er að ástundun er eitt en iðkun er annað. Iðkunin er í allskonar birtingarmyndum, líkamlegum, andlegum og veraldlegum. Ég fékk snemma áhuga á kennslu sem slíkri og það að verða jógakennari var einhvernveginn alltaf á bucket-listanum en það hefur verið móðurhlutverkið einna helst sem hefur hvatt mig til að iðka meira og dýpra og sættast við þann stað sem ég er á hverju sinni, á leið minni í gegnum þetta líf. Áður fyrr var ég óþolinmóð, harðorða og blátt áfram en í gegnum virðingarríkt uppeldi hef ég náð að móta þessa eiginleika betur og bæta við mig öðrum sem hjálpa mér að rækta sjálfið; hæglæti, mýkt og þolinmæði. Fyrir mér er yoga styrkurinn í mýktinni. Það er iðkun sem færir mér ákveðna ró og víðsýni, sérstaklega þegar ég upplifi mótstöðu og áskoranir í lífinu. Ég lærði hjá Ástu Arnardóttur, í Yogavin, og útskrifast þaðan 10.desember 2022. Námið er í senn andlegt og líkamlegt en ekki síður heildrænt. Ásta leggur mikið upp úr orðalagi og ásetningi, sem svo smitar inn í daglegt líf á svo fallegan hátt. Námið er RYS 250 tíma yoga kennaranám og er viðurkennt af Jógakennarafélagi Íslands og veitir aðild að JKFÍ og alþjóðleg yogakennararéttindi.

Marta Karen segir að jóga sé góð leið til að finna stöðugleika í rússíbana lífsins.

„Til að segja frá minni vegferð sem jógaiðkandi þarf ég að byrja á því að segja frá mínum fyrsta jógatíma, árið 2011 í allt of heitum sal í Amsterdam! Ég hef aldrei verið mikil íþróttamanneskja, en þrátt fyrir það að ég hélt að það myndi líða yfir mig, þá fékk ég smà bragð af því sem jógað býður manni uppá. Fyrir mér var þetta einskonar kyrrð í kaosinu.

Fimm árum seinna, og mörgum aðeins svalari jógatímum síðar, árið 2016, fór ég til Indlands í 200 tíma grunnnám hjá skólanum Rishikul Yogshala, viðurkennt af Yoga Alliance (RYS). Þar var manni kennt um grunnatriði Ashtanga og Hatha, hefðbundinn Nidra strúktúr, Pranayama öndunar æfingar, Möntrusöng, Ayurveda og heimspeki.

Ídag er ég að bæta við RYS 300 tíma námi frá skólanum Vinyasa Yogshala, staðsett í Rishikesh. Í þessu rafræna námi er ég að bæta við þekkingu í Yin jóga, Meðgöngujóga, Kundalini Tantra, Pranayama, dýpra ‘alignment’ í Hatha og Ashtanga.

Í millitíðinni hef ég verið að kafa djúpt í mína eigin jógaiðkun og lært af mörgun kennurum á leiðinni. Einn af þeim kennurum sem hefur staðið uppúr á mínu ferðalagi hefur verið Wayne Paul (@zen.gorillas), sem er einnig góður vinur minn í dag. Í gegnum undirstöður í Movement og Budakon, kenndi hann mér mikilvægi þess að hægja á í hreyfingunum. Þetta litla atriði veitti mér aukna líkamsgetu og meðvitund.

Út frá kennslu hans kynntist ég einnig CHEK institute. Þar sótti ég rafrænt námskeið í heildrænni heilsu kvenna (Holistic Health and Performance for Women) eftir Sara Gustafsson. Þetta nám tók mig inn á nýjar slóðir. Eftir að hafa svo gengið með mitt fyrsta barn, árið 2021, hef ég fengið þann heiður að halda rými fyrir meðgöngu- og mömmu tíma hjá Auði Bjarnadóttur í Jógasetrinu, Reykjavík. Tímarnir í veröld Auðar hafa og halda áfram að kenna mér allskonar hluti um sjálfa mig í móðurhlutverkinu, eins og að sleppa tökunum og finna styrkinn í mýktinni.