Hver er að gæta hagsmuna fasteignaeigenda á Akranesi?

Aðsend grein frá Ragnari B. Sæmundssyni.

Um þessar mundir stendur yfir árleg fjárhagsáætlunargerð allra sveitarfélaga og vinna henni tengdri.  Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar var til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 8. nóvember sl. Áður hafði áætlunin komið til afgreiðslu í bæjarráði, þar sem lögð var fram tillaga frá meirihlutanum um óbreytt álag fasteignagjalda og var sú tillaga samþykkt  af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar en ekki fulltrúa Framsóknar og frjálsra.

Hvað þýðir óbreytt álag og hvaða afleiðingar hefur það fyrir fasteignaeigendur á Akranesi? Þegar borið er saman fasteignamat áranna 2022 og 2023 kemur í ljós að óbreytt álag þýðir u.þ.b. 15 – 30% hækkun á fasteignaeigendur á Akranesi. Hækkun sem getur þannig numið tugum þúsunda á ári fyrir heimili og fyrirtæki í bæjarfélaginu. Svo mikla hækkun, er í mínum huga ómögulegt að færa rök fyrir að eðlilegt sé að leggja að fullu á heimili og fyrirtæki. Ekki síst vegna þess að á sama tíma er lögð fram fjárfestinga- og fjárhagsáætlun sem ber þess ekki nokkur merki að draga eigi saman í helstu útgjaldaliðum sveitarfélagsins, heldur þvert á móti. Áætlunin gerir ráð fyrir gríðarlegum innri vexti og má þar t.d. nefna að gert er ráð fyrir að launaliður kaupstaðarins vaxi um tæpan milljarð á milli áranna 2021 til 2023. 

Hækkandi verðbólga, vextir, matarverð og í raun öll útgjöld er sá raunveruleiki sem við heimilum blasir  í dag og má gera ráð fyrir því að sú staða verði viðvarandi næstu misseri. Í ljósi fyrrgreinds var eðlilega mikil umræða um þessa miklu skattahækkun á fundi bæjarstjórnar þann 8. nóvember sl. þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, sem skipa meirihluta bæjarstjórnar, töluðu um að bæjarsjóður þyrfti að nýta sinn tekjustofn betur  og það væri ábyrgðarleysi að gera annað  auk þess sem bæjarsjóður yrði af tekjum frá Jöfnunarsjóði væri tekjustofninn  ekki nýttur betur. Til þess að útskýra nánar, þá er í raun ekki  vitað hvort eða þá hversu mikið sveitarfélagið verður af framlagi Jöfnunarsjóðs, það framlag mótast af mörgum ólíkum þáttum og í raun ómögulegt að áætla að við verðum hér af miklu framlagi. Hins vegar er alveg ljóst að við erum ekki að gæta að okkar aðal hagsmunahópum á Akranesi, það eru íbúar og fyrirtæki. 

Þessum málflutningi mótmæltu eðlilega fulltrúar Framsóknar og frjálsra, en í okkar huga felst mikil ábyrgð í því að nálgast skattstofninn af skynsemi og sanngirni og deila ábyrgðinni rétt og jafnt. 

Fasteignagjöld eru skattur og sem slíkur er hann annar stærsti tekjuliður sveitafélaga á eftir útsvari. Hann er því sveitarfélaginu augljóslega gríðarlega mikilvægur í uppbyggingu. Uppbyggingin má hins vegar aldrei ákvarða stofninn.

Sú umgjörð sem markar útreikning skattstofnsins er svo efni í aðra grein. Fasteignaskatturinn ræðst óheft af markaðsvirði þ.e.a.s hann reiknast af meðal söluverði þeirra eigna sem seldar voru í sveitarfélaginu á liðnu ári. Stofninn er því háður áhrifaþáttum sem hinn almenni fasteignareigandi getur ekki með nokkru móti haft áhrif á eða brugðist við. Síðastliðin ár hafa verið gífurlegar hækkanir á fasteignamarkaði og má segja að ástandið hafi verið nær stjórnlaust um tíma þegar fasteignir hækkuðu um milljónir ef ekki tugi milljóna á skömmum tíma. Þessar hækkanir skila sér svo beint inn í hækkun fasteignamats. Það er lagaumgjörðin um útreikning skattstofnsins sem þarf að skoða. Á meðan það er ekki gert verða bæjarfulltrúar að bregðast við og lækka álagsstofninn á móti hækkandi fasteignamati til þess að koma í veg fyrir hækkanir líkt og nú blasa við okkur.

Mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar kynnt lækkanir á álagningu fasteignagjalda. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og Akraneskaupstaður ræðst í markaðsátak (Það er stutt) sem að ákveðnu leyti er beint að íbúum höfuðborgarsvæðisins ætli sveitarfélagið að halda sig við óbreytta álagsprósentu. Það hljóta jafnframt að teljast nokkuð sérstök skilaboð til þeirra fyrirtækja (byggingaraðila) sem tóku þátt og greiddu að hluta fyrir átakið, að nú komi stóri reikningurinn. Að það sé vilji Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar á Akranesi að hækka fasteignaskatt á heimili og fyrirtæki um 15-30%.  

Á síðasta kjörtímabili (2018 -2022) voru Framsókn og frjálsir í meirihluta, á því tímabili var álagsprósentan markvist lækkuð á móti hækkandi fasteignamati. Við upphaf kjörtímabilsins var álagsprósentan 0.3100% en endaði í 0,2514% við lok kjörtímabils. Það er þessi vegferð sem við í Framsókn og frjálsum viljum halda áfram en fyrir því virðist vera takmarkaður áhugi hjá núverandi meirihluta. Það skal þó tekið fram að eftir umræður og mótrök minnihlutans óskaði bæjarráð hefur eftir frekari rýningu á álagsprósentu á milli umræðna en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar þann 13. desember nk.

Því fylgir mikil ábyrð að vera bæjarfulltrúi. Okkur ber að gæta hagkvæmni og skynsemi  í rekstri bæjarsjóðs og allar þær ákvarðanir sem við tökum verða að vera með hagsmuni heildarinnar í huga. Ábyrgð okkar bæjarfulltrúa einskorðast samt ekki eingöngu við rekstur bæjarins því sveitarfélögin í landinu leika stórt hlutverk í heildar hagkerfinu. Á sama tíma og ríkisstjórnin fer í aðgerðir til þess að reyna ná niður verðbólgu og kallar eftir aðkomu allra að því borði geta sveitarfélögin ekki leyft sér að stinga hausnum bara í sandinn og beðið eftir því að þetta líði hjá. Sveitarfélagið mun kannski ekki redda málunum eitt og sér með þessari aðgerð, en við erum hluti af heild og okkur bera að taka þátt með hag íbúa að leiðarljósi. 

Þetta getur ekki og má ekki verða okkar innlegg. Við erum hér markvisst að gæta hagsmuna okkar íbúa og fyrirtækja þannig að réttlæti og sanngirni sé höfð að leiðarljósi í öllum þeim ákvörðunum sem eru teknar. 

 

Ragnar Sæmundsson
Oddviti Framsóknar og frjálsra