Íslenska kokkalandsliðið er um þessar mundir að keppa á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg.
Skagamaðurinn Ísak Darri Þorsteinsson er í liðinu en hann hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð sem matreiðslumaður.
Ísak Darri og félagar hans í landsliðinu unnu til gullverðlauna í „Restaurant of nations“ þar sem framreiddur var þriggja rétta matseðill fyrir 110 manns.
Ísak Darri starfar á veitingahúsinu Tides í Reykjavík.
Keppni lýkur á fimmtudaginn.
„Að koma frá litlu landi er styrkleikinn okkkar, við þekkjumst öll og getum unnið mikið saman.“ Liðið hafi tækifæri til að hittast oft og æfa saman sem sé erfiðara og kostnaðarsamara hjá stóru löndunum,“ segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, sem rekur íslenska kokkalandsliðið í viðtali við RÚV.
Tuttugu lönd taka þátt í heimsmeistaramótinu í ár. Keppnin er frádráttarkeppni þar sem öll lið byrja með 100 stig.
Dæmt er með tilliti til snyrtimennsku, fagmennsku, útlits rétta og bragðs. Gullframmistaða er fyrir 90 stig eða fleiri, silfurframmistaða fyrir 80 til 90 stig og brons fyrir 70 til 80 stig.