Kynningarefni:
„Frá því að við byrjuðum að auglýsa jólahlaðborðið okkar hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum. Það er greinilega mikil tilhlökkun fyrir slíkum viðburðum í samfélaginu – enda langt síðan að hægt var að halda jólahlaðborð án takmarkana. Fjölmörg fyrirtæki ætla að bjóða starfsfólki sínu á jólahlaðborðið og stemningin er góð,“ segir Hlynur Guðmundsson veitingamaður á Nítjánda / Bistro & Grill á Akranesi.
Nú þegar eru tvö kvöld uppseld og vel bókað á önnur kvöld. Hlynur er þakklátur fyrir viðtökurnar og finnur hann fyrir miklum áhuga á viðburðinum.
Hlynur hefur langa reynslu af jólahlaðborðum og hlakkar hann til að bjóða upp á fjölbreyttan matseðil sem hefur notið vinsælda.
„Ég var lengi með jólahlaðborð á Fjörukránni í Hafnarfirði. Það var skemmtilegur tími og ég er sannfærður um að það verður sama uppi á teningnum hér á Akranesi. Markmiðið hjá okkur er að það verði gott pláss fyrir alla gesti á jólahlaðborðinu hér á 19. holunni. Það verða í kringum 120 gestir í hvert sinn og þá fer vel um alla sem eru hér í salnum. Flosi Einarsson mun skapa alvöru jólastemningu í salnum með lifandi tónlistarflutningi ásamt börnum sínum – Ylfu og Halli. Þau munu sjá til þess að kvöldið verður notarlegt með ljúfri tónlist – og söng.“
Fjölskyldustemning og óvæntir gestir þann 11. desember
Sunnudaginn 11. desember verður verður lögð áhersla á fjölskyldustemning og yngri kynslóðin fær tækifæri að upplifa góðan mat samhliða skemmtun.
„Já við ætlum að prófa að bjóða upp á fjölskyldudagskrá sunnudaginn 11. desember þar sem að við byrjum kl. 17:30. Þar verður boðið upp á atriði fyrir yngstu kynslóðina þar sem við fáum meðal annars góða gesti úr fjöllunum hér í kring – svo eitthvað sé nefnt.“
Einn túr á togara varð að þremur áratugum á Ólafsfirði
Hlynur og eiginkona hans, Helga Ingimarsdóttir, eru búsett í Hafnarfirði en sonur þeirra, Ingimar Elí, býr á Akranesi með fjölskyldu sinni.
„Við eigum alls þrjú börn og fjögur barna-börn. Dóttir okkar, Anna Dís, á unnusta sem heitir Hlynur Ísak. Kristófer Númi sonur okkar, og konan hans Alexandra Ósk eiga 2 stúlkur. Sonur okkar, hann Ingimar Elí, er búsettur hér á Skaganum. Hann á tvo drengi með konu sinni Valdísi Marselíu Þórðardóttur. Akranes hefur því verið stórt aðdráttarafl fyrir okkur á undanförnum árum og barnabörnin hér eru hluti af stórri fótboltaætt hér á Akranesi.“
Hlynur er fæddur í Grindavík þar sem hann ólst upp. Hann fór í matreiðslunám á Akureyri árið 1988 þar sem hann starfaði á meðan hann var á samningi. Hlynur segir að hann hafi ætlað sér að klára námið og taka sveinsprófið á þessum árum – en það plan fór aðra leið.
„Ég var beðinn um að taka einn túr sem kokkur á frystitogaranum Mánabergi frá Ólafsfirði árið 1992 – þegar ég var að klára samninginn á veitingahúsinu. Ég sló til og ég ætlaði bara að taka einn túr, fara síðan í sveinsprófið og klára matreiðslunámið. Fljótlega kynntist ég konunni minni, Helgu Ingimarsdóttur, sem er frá Ólafsfirði. Planið breyttist því talsvert og þessi „eini túr“ stóð yfir í 30 ár,“ segir Hlynur og hlær.
Hlynur ákvað að breyta til fyrir rúmleg áratug þegar fjölskyldan flutti í Hafnarfjörð.
„Það eru 12-13 ár síðan við fluttum frá Ólafsfirði. Ég tók þá ákvörðun að klára námið og ég fór í raunfærnimat hjá Iðan fræðslusetur. Í kjölfarið fór í skólann á ný þar sem ég var með samnemendur sem voru flestir á aldri við strákana okkar. Þetta var frábær tími og ég sé ekki eftir þessari ákvörðun að fara í námið á ný.“
Nóg að gera á Nítjánda / Bistro & Grill og allir velkomnir
Vorið 2022 opnaði Hlynur Nítjánda / Bistro & Grill í nýju frístundamiðstöðinni, Garðavöllum, við golfvöllinn á Akranesi. Hann segir að sumarið hafi gengið vel og verið lærdómsríkt.
„Ég flutti starfsemi fyrirtækisins hingað á Akranes s.l. vor þegar samstarfið við Golfklúbbinn Leyni fór í gang. Hér er gott að vera, það frábær vinnuaðstaða hér á Garðavöllum fyrir veitingaþjónustu. Það hefur allt lifnað við í þessum bransa eftir undarlega tíma undanfarin ár vegna heimsfaraldurs. Það er nóg að gera í veisluþjónustunni – og við erum að „flytja út“ veislumat héðan frá Akranesi út um allt. Sem dæmi þá vorum við nýverið með mjög stóra árshátíð í Logalandi – þar sem við unnum allt og undirbjuggum hér á Akranesi og fluttum það upp í Borgarfjörð. Það hefur verið skemmtileg reynsla að vera með veitingarekstur á golfvelli. Við lærðum mikið á fyrsta sumrinu – sem var að mörgu leyti óvenjulegt þar sem að allt opnaðist eftir heimsfaraldur. Það voru ýmsar hindranir og áskoranir sem við þurfum að leysa fyrstu vikurnar. Það var ekki einfalt að finna starfsfólk – en það tókst að lokum og sumarið gekk mjög vel. Það var mikið að gera. Við erum þegar byrjuð að undirbúa næsta sumar með nýjungum á matseðli og bæta ofan á það sem gekk vel í sumar. Til lengri tíma þá langar okkur að íbúar og gestir á Akranesi upplifi að Nítjánda / Bistro & Grill er fyrir alla. Við erum vissulega staðsett í fallegu húsi við frábæran golfvöll – en við þurfum að koma því betur til skila að hingað eru allir velkomni. Í vetur ætlum við að vera með opið um helgar og ég er bjartsýnn á framhaldið,“ segir Hlynur Guðmundsson að lokum.
Nítjánda Bistro & Grill verður með jólahlaðborð í nóvember og desember á eftirfarandi dagsetningum:
Föstudaginn 25.nóvember kl 19:00 *uppselt*
Laugardaginn 26.nóvember kl 19:00 *örfá sæti laus*
Föstudaginn 2.desember kl 19:00 *uppselt*
Laugardaginn 3.desember kl 19:00 *örfá sæti laus*
Föstudaginn 9.desember: kl 19:00 *uppselt*
Laugardaginn 10.desember: kl 19:00
Sunnudaginn 11.desember kl 17:30.
Fjölskyldukvöld – jólasveinninn kíkir í heimsókn og dansað verður í kringum jólatréið.
Bókanir berist á netfangið [email protected]