Bæjarfréttamiðlar í útrýmingarhættu?

Þessi pistill er skrifaður með það að markmiði að upplýsa lesendur um þá stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi búa við. 

Markmiðið er einnig að hvetja ykkur lesendur góðir til þess að taka þátt í því að byggja upp öflugan bæjarfréttamiðil á Akranesi. 

Alþjóðlegir samfélagsmiðlar skrifa ekki fréttir og beina kastljósinu að því sem hæst ber í nærumhverfinu. 

 

Nánar neðst í þessum pistli.

Fréttavefurinn skagafrettir.is var settur á laggirnar fyrir rúmlega sex árum.

Þann 10. nóvember 2016 var ýtt á „enter“ og skagafrettir.is varð aðengilegur á veraldarvefnum. 

Þegar ákvörðunin var tekin að setja þetta verkefni af stað var lagt af stað án þess að hugsa mikið um þær hindranir sem voru á veginum. 

Mikil þekking á fjölmiðlum var til staðar, samhliða brennandi áhuga á samfélaginu á Akranesi. Það var drifkrafturinn og lagt var í þessa vegferð. 

Markmiðið var á þeim tíma að beina kastljósinu að fréttum og sögum af Skagamönnum nær og fjær. 

Fréttum sem stóru fréttamiðlar landsins hafa ekki tök á að fjalla um eða falla utan áhugasviðs þeirra.

Jákvæður tónn hefur einkennt fréttaflóruna á skagafrettir.is – með einhverjum undantekningum þó. Og viðtökur lesenda hafa verið framar vonum. Kærar þakkir.

Í dag eru mörg þúsund fréttir aðgengilegar á skagafrettir.is – samhliða því hafa mörg þúsund ljósmyndir verið teknar og er markmiðið að koma þeim í enn stærri glugga með aðgengilegum hætti á næstu vikum og mánuðum. 

Frá því að fréttamiðlar á heimsvísu byrjuðu að setja fréttir á veraldarvefinn rétt fyrir síðustu aldamót hafa lesendur gengið að því vísu að geta lesið fréttir og greinar án þess að greiða fyrir það. 

Á fyrstu áratugum veraldarvefsins gekk þetta viðskiptamódel upp upp þar sem að töluverð eftirspurn var hjá auglýsendum á slíkum miðlum. 

Í dag er landslagið mun flóknara og tekjumöguleikar fjölmiðla á auglýsingamarkaði fara ört minnkandi. 

Öflug og framsýn fyrirtæki hafa frá fyrsta degi tekið þátt í þessu verkefni með okkur. Einstaklingar hafa einnig lagt Skagafréttum lið með framlögum. Slíkur stuðningur er ómetanlegur. Kærar þakkir. 

Þessi stuðningur dugir hinsvegar ekki til þess að að skagafrettir.is geti talist sjálfbær og staðið undir einu stöðugildi. Þar vantar töluvert upp á. Það er reyndar ekki satt. Það markmið er ekki í augsýn eins og staðan er á þessum markaði.  

Eins kemur fram fyrr í þessum pistli er staðan á auglýsingamarkaði flókinn og erfið. 

Sem dæmi úr nærsamfélaginu á Akranesi má nefna að stór og landsþekkt fyrirtæki nýta sér flest þjónustu birtingahúsa til að velja þá miðla þar sem auglýst er.

Birtingahúsin forgangsraða fjármagninu sem þau hafa til umráða frá viðkomandi fyrirtækjum til auglýsingakaupa á stóru miðlana og erlenda samfélagsmiðla. 

Það færist í aukana að fyrirtæki og birtingahús kaupi auglýsingar hjá risafyrirtækjunum á borð við Facebook, Youtube, Twitter og Google. 

Í þessu samhengi má benda á þá staðreynd að þessir aðilar skrifa ekki fréttir úr nærsamfélaginu – það gera aðrir sem hafa brennandi áhuga á því – án þess að fá sneið af auglýsingakökunni. 

Það eru einnig stórfyrirtæki á Akranesi sem auglýsa nánast ekki neitt í þeim fjölmiðlum sem eru í nærumhverfinu (Skagafréttir, Skessuhorn og Pósturinn).

Þessi fyrirtæki nota í auknum mæli íbúasíður á samfélagsmiðlum (Ég er íbúi á Akranesi) til þess að koma sínum vörum og þjónustu á framfæri. 

Það má alveg setja spurningamerki við þessa þróun – og velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að risafyrirtæki fá „hillu“ fyrir óbeinar auglýsingar á íbúasíðum á samfélagsmiðlum.  

Samfélagsmiðlar sem notaðir eru sem upplýsingasíður fyrir íbúa hafa sína kosti. 

Slíkt hentar vel fyrir félagasamtök, einyrkja og einstaklinga sem geta með einföldum hætti náð til margra á stuttum tíma. 

Samfélagsmiðlar skrifa hinsvegar ekki fréttir og beina kastljósinu að því sem hæst ber í nærumhverfinu. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Akranesi nýta mörg hver samfélagsmiðla í auknu mæli til þess að koma sér á framfæri. Það er mjög skiljanlegt þar sem að sá gluggi er mun stærri en bæjarfréttamiðlar geta boðið upp á. 

Einnig eru mörg fyrirtæki hér á Akranesi sjá engan tilgang í því að láta vita af sér með auglýsingum. 

Staðan er því flókin, erfið og stundum óréttlát. 

Bæjarfréttamiðlar víðsvegar um landið hafa á undanförnum árum verið lagðir niður þar sem að rekstrargrundvöllur þeirra var brostinn. Margir telja að slíkir miðlar séu í útrýmingarhættu.

Fréttamiðlar víðsvegar um veröldina hafa í auknu mæli farið þá leið að loka fyrir frían aðgang að fréttum. 

Stærstu fjölmiðlar heims hafa fetað þá slóð að búa til lokað áskriftarkerfi – þrátt fyrir að vera með góða stöðu á auglýsingamarkaði. 

Skagafréttir hafa ekki hug á því að læsa efninu og hefta aðgengi að vefnum. 

Skagafréttir bera þá von í brjósti að þið lesendur, Skagamenn nær og fjær, íhugi þá stöðu sem bæjarfréttamiðlar búa við í harðri samkeppni á auglýsingamarkaði. 

Þið kæru lesendur eru grunnurinn að því að bæjarfréttamiðlar á borð við Skagafréttir haldi áfram að beina athyglinni að því sem er að gerast í samfélaginu á Akranesi. 

Það gerið þið með því að sýna stuðning ykkar í verki með frjálsum framlögum – sem má líta á sem áskrift að jákvæðum fréttum úr ört vaxandi samfélagi á Akranesi. 

Þú getur smellt hér til þess að skoða þá valkosti sem eru í boði hvað varðar stuðning við skagafrettir.is. 

Bestu kveðjur; Sigurður Elvar Þórólfsson, eigandi og ritstjóri Skagafrétta.