Körfuboltalið ÍA, sem leikur í næst efstu deild Íslandsmóts karla, er í ágætri stöðu þegar 11 umferðum er lokið í deildarkeppninni.
ÍA vann góðan 102-78 sigur gegn Þór frá Akureyri s.l. föstudag á heimavelli.
Framundan eru áhugaverðir leikir gegn liðunum sem eru í 3. og 4. sæti deildarinnar.
ÍA leikur gegn Hamarsmönnum á útivelli í Hveragerði. Sá leikur fer fram fimmtudaginn 8. desember.
Lið frá Suðurlandi er þemað hjá ÍA næstu dagana því Selfoss kemur í heimsókn á Akranes 16. desember – í síðasta leiknum á þessu ári. Deildarkeppnin fer af stað þann 6. janúar á næsta ári þegar ÍA mætir Ármenningum á útivelli.
ÍA er í 7. sæti deildarinnar en eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan er stutt í sætin fyrir ofan. Efsta lið deildarinnar í lok tímabilsins fer beint upp í úrvalsdeildina, Subwaydeildina.
Liðin sem enda í sætum 2.-5. leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti í deild þeirra bestu. Lið nr. 2 mætir liði nr. 5, og lið nr. 3 mætir liði nr. 4. Sigurliðin úr þessum viðureignum mætast síðan í úrslitaeinvígi um laust sæti í efstu deild.