Kaldi potturinn er klár í Jaðarsbakkalaug – tæplega 18 milljóna kr. framkvæmd

Í dag var nýr pottur við Jaðarsbakkalaug opnuð með formlegum hætti.

Um er að ræða pott þar sem að sundlaugargestir geta kælt sig niður – en hitastigið verður á bilinu 4-6 gráður. 

Til samanburðar eru heitu pottarnir á bilinu 37-41 gráður. 

Undirbúningur verksins hófst árið 2021 og framkvæmdir hófust vorið 2022. Heildarkostnaður við verkefnið nemur tæplega 18 milljónum kr – eða 17,7 milljónir kr.

Margir telja sig fá heilsuágóða að fara í kalt vatn og er potturinn til þess ætlaður.

Nýi potturinn leysir af hólmi fiskikar sem hefur verið notað sem kaldur pottur í mörg ár.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, og Hrönn Ríkharðsdóttir, formaður ÍA, héldu stuttar ræður við opnunina í blíðviðrinu í dag.

Fulltrúar bæjarstjórnar Akraness klipptu á borða og þar með kaldi potturinn opnaður með formlegum hætti.

Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, Jón Sverrisson, garðyrkjustjóri Akraness og Bryndís Ólöf Guðjónsdóttir, frá Sjóbaðsfélagi Akraness fengu þann heiður að fara fyrst ofaní pottinn – sem en hitastigið á vatninu var 6 gráður.

Basalt arkitektar sáu um hönnun á kalda pottinum en fyrirtækið hannaði einnig heitu pottana og vaðlaug. Liska sá um lýsingarhönnun og Mannvit um verkfræðihönnun.

Hörður Kári Jóhannesson sá um verkefnastjórn og eftirlit ásamt starfsmönnum Akraneskaupstaðar.

Trésmiðja Þráins E. Gíslasonar sá um jarðvinnu og uppsteypu – sem er sami verktaki og í uppbyggingu á nýju heitu pottunum við Jaðarsbakkalaug.

Framkvæmdin var nokkuð flókin hvað varðar mótavinnu en mótin voru smíðuð á verkstæði fyrirtækisins og flutt á staðinn. Á meðan framkvæmdinni stóð var smíðað skýli yfir pottinn til þess að fá rétt hitastig við flísalögnina í pottinum.

Pípulagningaþjónustan ehf sá um lagnavinnu, Vogir og lagnir sáu um raflagnir, Viðar Þrastarson múrarameistari sá um flísalögn og Steðji um smíði á handriði.