Forsetahjónin koma í opinbera heimsókn á Akranes

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid koma í opinbera heimsókn á Akranes þann 15. desember næstkomandi. 

Tekið verður á móti forsetahjónum við Hvalfjarðargöng og þeim fylgt í bæinn, fyrsti áfangastaður verður aðsetur bæjarskrifstofunnar að Dalbraut 4 þar sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúar munu taka vel á móti þeim ásamt fleiru fólki.

Dagurinn er síðan þéttskipaður og munu forsetahjónin meðal annars fara í sjósund, heimsækja Skagann 3X, Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða, líta inn í nýja leikskólanum Garðaseli og hitta þar elstu árganga leikskólabarna á Akranesi. Heimsókn í Þekjuna, frístundaheimili Brekkubæjarskóla, er líka á dagskrá, skoðuð verður aðstaðan í nýja fimleikahúsinu og einnig er áætlað að heimsækja Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Nýsköpunarmiðstöðina á Breið. 

Heimsókinni lýkur svo með hátíðardagskrá í tengslum við 80 ára afmæli Akraneskaupstaðar í Nýsköpunarsmiðstöðinni Breið þar sem bæjarbúum er boðið að hitta forsetahjónin og þiggja veitingar með þeim í tilefni afmælisins og heimsóknarinnar. 

Hátíðardagskráin hefst kl. 16:30 og stendur til kl. 18:00.

Akraneskaupstaður hvetur fólk og fyrirtæki til að skreyta og flagga með íslenska fánanum og fjölmenna svo í Nýsköpunarmiðstöðina kl. 16:30.