Nýleg raðhús á Akranesi hafa verið tilnefnd til heiðursverðlauna í kosningu hjá Arkitektúruppreisninni um nýbyggingar ársins. Hjá félaginu er kosið um ljótustu og fallegust byggingar ársins.
Arkitektúruppreisnin á Íslandi er stefna og umræðuvettvangur um framtíð arkitektúrs á Íslandi. Í kynningartexta á fésbókarsíðu þeirra segir:
Við viljum sjá fallegri arkitektúr í okkar byggðum og viljum sýna að það eru aðrir valmöguleikar en bara módern. Það er raunhæft að byggja fallegan hefðbundinn arkitektúr.
Arkitektúruppreisnin á uppruna sinn að rekja til Svíþjóðar. Þar hefur Arkitekturupproret skapað mikla umræðu um framtíð arkitektúrs þar í landi og náð miklum vinsældum. Stefnan hefur breiðst til allra Norðurlandanna og víðar. Arkitektúruppreisnin er ópólitísk. Fallegur arkitektúr er mál allra aðila.