Myndband og myndasyrpa: Kröftug og friðsöm mótmælaganga Fjöliðjunnar vakti athygli

Í dag fór fram kröftug en friðsöm mótmælaganga hjá skjólstæðingum Fjöliðjunnar, starfsfólki og velunnurum. Fjöliðjan er vinnustaður á Akranesi þar sem boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu.

Starfsfólk og skjólstæðingar Fjöliðjunnar eru ósammála þeirri vegferð sem bæjarstjórn Akraness hefur valið að fara hvað varðar framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar.

Dramtíðarhúsnæði starfseminnar verður á tveimur stöðum, í nýrri Samfélagsmiðstöð að Dalbraut 8 og Kalmansvöllum 5 – þar sem að móttaka einnnota umbúða verður, ásamt áhaldahúsi bæjarins og nytjamarkaðinum Búkollu. .

Síðustu fjögur ár hefur meginhluti starfseminnar verið með aðstöðu að Smiðjuvöllum 9 eða frá því að bruni kom upp í húsnæði starfstöðvarinnar við Dalbraut árið 2019. Auk húsnæðisins að Smiðjuvöllum 9 hefur Fjöliðjan verið með verkefni á nokkrum öðrum starfsstöðum í sveitarfélaginu.

Mótmælagangan vakti mikla athygli í dag – en stærstu fjölmiðlar landsins gerðu sér ferð á Akranes til þess að fjalla um viðburðinn ásamt bæjarfréttamiðlunum skagafrettir.is og Skessuhorn.

Gangan hófst við Smiðjuvelli 9 og var gengið stutta leið niður á Dalbraut þar sem að bæjarskrifstofur Akraness eru staðsettar. Þar tóku bæjarfulltrúar á móti mótmælendum og buðu þeim inn í hlýjuna þar sem að Sævar Freyr Þráinsson ávarpaði gestina.

Hér fyrir neðan er myndband frá kröfugöngunni og þar er einnig hægt að hlusta á það sem Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri hafði að segja. Einnig er myndasyrpa frá skagafrettir.is