Stærsta framkvæmdaár sögunnar framundan hjá Akraneskaupstað – fasteignagjöld lækka og gjaldskrá leikskóla óbreytt 

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði og halda aftur af gjaldskrárhækkunum þjónustu.

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2023 var samþykkt á fundinum og gerir áætlunin ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta að fjárhæð um 142,2 m.kr. og að handbært fé í árslok verði um 1269,3 m.kr. 

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá því í gær. Á fundinum var álagning gjalda fyrir árið 2023 samþykkt.

Á meðal helstu atriði má nefna að álagningastofn íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum lækkar, álagningarstofn af fasteignum er óbreyttur frá fyrra ári, sorphreinsunargjald verður óbreytt.
Þjónustugjaldskrá Akraneskaupstaðar hækkar um 7% en gjaldskrá leikskóla verður óbreytt og tekur ekki hækkun. Það sama á við gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar, sem verður óbreytt. Aldrei áður hefur jafn miklu fjármagni verið veitt til fjárfestinga og framkvæmda.

Nánar hér fyrir neðan.

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um rúmar 252 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 142 milljónir króna. Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum upp á rúmlega 2,5 milljarða króna.

Í fundargerð bæjarstjórnar segir að komið verði til móts við heimili og fyrirtæki á Akranesi með því að lækka álagningarprósentur fasteignagjalda, með það að markmiði að draga úr áhrifum hækkunar fasteignamats á upphæð fasteignagjalda. Leikskólagjöld hækka ekkert á milli ára og sama gildir um gjaldskrá félagslegrar heimaþjónustu.

Aldrei áður hefur jafn miklu fjármagni verið veitt til fjárfestinga og framkvæmda.

Stærstu fjárfestingarverkefni næsta árs eru áframhald uppbyggingar á nýju íþróttahúsi við Jaðarsbakka og stórfelldar endurbætur og í raun endurbygging á hluta húsnæðis Grundaskóla. 

Meðal annarra verkefna sem áætluð eru á næstu árum má nefna endurbætur á húsnæði Brekkubæjarskóla, byggingu húsnæðis fyrir áhaldahús, dósamóttöku og Búkollu og byggingu á nýjum íbúðakjarna fyrir fatlaða og samfélagsmiðstöð þar sem aðstaða verður fyrir fjölbreytta þjónustu á vegum bæjarfélagsins. 

Á næstu árum verður unnið að verulegum framkvæmdum í gatnagerð, en í fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að á árinu 2023 verði lagðar nýjar götur fyrir um 600 milljónir króna og þeirri gatnagerð svo haldið áfram af næstu ár þar á eftir.

Álagning gjalda 2023.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2023:
a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2023.

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts verða eftirfarandi á árinu 2023:

i. 0,2306% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga
(lækkað frá fyrra ári, var 0,2514%).

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
(óbreytt frá fyrra ári)

iii. 1,3718% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
(lækkað frá fyrra ári, var 1,4000%)

c. Sorphreinsunargjald verði kr. 19.256 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp). Sorpeyðingargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði kr. 16.422 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
(óbreytt frá fyrra ári)

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða og verði innheimt með fasteignagjöldum.

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2023 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2023.

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2023, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.

Þjónustugjaldskrá 2023:

A. Gjaldskrá leikskóla, verður óbreytt og tekur ekki hækkun.

B. Gjaldskrá vegna skólamáltíða, tekur almennri hækkun.

C. Gjaldskrá frístundar, tekur almennri hækkun.

D. Gjaldskrá dagstarfs, tekur almennri hækkun.

E. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness, tekur almennri hækkun.

F. Gjaldskrá íþróttamannvirkja, tekur almennri hækkun.

G. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar, verður óbreytt og tekur ekki hækkun.

H. Gjaldskrá Bókasafns Akraness, tekur almennri hækkun.

I. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness, tekur almennri hækkun.

J. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness, tekur almennri hækkun.

K. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum, tekur almennri hækkun.

L. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi, tekur almennri hækkun.

M. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi, tekur almennri hækkun.

N. Gjaldskrá Akranesvita, tekur almennri hækkun.

P. Gjaldskrá Tjaldsvæðisins á Akranesi (sértæk ákvörðun í samvinnu við þjónustuveitanda)

Q. Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi verður óbreytt og tekur ekki hækkun.
Samþykkt 9:0