Ávarp skólameistara FVA við brautskráningu haustið 2022

Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi gaf nemendum góð ráð við brautskráningu þeirra s.l. laugardag. Hér má lesa ávarp Steinunnar í heild sinni.  

 

Kæru útskriftarnemendur, mitt góða starfsfólk og ágætu gestir.

Hér er nú aldeilis fagur og fjölbreytilegur hópur. Loksins er þessi langþráði dagur runninn upp – á ýmsu hefur gengið en þetta hafðist.

Mörg ykkar sem nú útskrifast hófu nám við skólann á dögum veirufaraldursins sem geisaði um heiminn frá ársbyrjun 2020 – nokkrum vikum eftir að ég byrjaði hér sem skólameistari. Við höfum því upplifað öll saman, nemendur og starfsfólk, ýmislegt miður skemmtilegt eins og grímuskyldu, handsprittun, hólfaskiptingu, bólusetningu, sóttkví, samkomubann og meira að segja skólalokun um tíma. Allt þetta er núna svo fjarri mínum huga og það er merkilegt til þess að hugsa núna að alþjóðaflug hafi lagst af, sjúkrahús fyllst, hlutabréf fallið og milljónir misst vinnuna. Og reyndar er staðan enn sú að veiran lifir, bara hluti heimsbyggðarinnar fékk bóluefni því ríku löndin hömstruðu það en það er önnur saga. 

Þið sem hér sitjið sýnduð mikinn kjark og þol, útsjónarsemi og langlundargeð meðan á þessu öllu gekk. Það tekur á að stunda nám, ekki síst þegar því er bætt ofan á fulla vinnu og heimilishald eins og mörg ykkar hafið gert. En nú fögnum við því að hafa getað lokið náminu án verulegra skakkafalla, til hamingju!

Nú er það eitt af mörgum mikilvægum hlutverkum í lífinu að láta gott af sér leiða – til þess erum við hér á jörð, og ég segi ykkur það að þið getið byrjað strax í dag að gera það og bæta þannig heiminn, þið getið verið komin vel á veg fyrir áramót! Það er amk þrennt sem við getið valið um að gera til þess:
Í fyrsta lagi að skoða hugarfarið. 

Ég segi ykkur eina dæmisögu sem þið munuð aldrei gleyma:

Bóndi nokkur var á ferð í klettaskornum fjöllum og rakst egg sem hafði oltið út úr arnarhreiðri. (Ath. bóndi getur verið að hvaða kyni sem er). Bóndinn tók eggið með sér, hélt á því hita alla leið heim í bæ og lagði það síðan í varpkassa í hænsnakofanum. Eftir nokkra daga klöktust eggin út, gulir kjúklingar brutust úr eggjunum, skríkjandi kátir, en úfinn arnarungi skreiddist úr því síðasta. Arnarunginn varð glaður að sjá systkini sín og lærði af þeim að gagga, éta fræ og grafa eftir ánamöðkum. Hann blakaði stundum stóru vængjunum sínum og flaksaðist þá aðeins frá jörðu eins og kjúklingar gera, hélt síðan áfram að leita að fræjum. En eftir því sem árin liðu varð örninn sífellt mæddari og leiðari á lífinu. Dag einn var hann á vappi um bæjarhlaðið og sá stóran fugl fljúga yfir, hátt og tignarlega sveif hann um háloftin. „Hver er nú þetta“, spurði örninn. Gömul vitur hæna (ef hún er þá til) varð fyrir svörum: „Þetta er örninn, konungur fuglanna, hann flýgur hátt, himnarnir eru hans heimkynni en við erum hænsnfuglar og okkar heimkynni eru hér á jörðu niðri.“ Svo örninn lifði og drapst síðan eins og sá kjúklingur sem hann hélt að hann væri.

Hvað er þessi saga að segja okkur, hvað má af henni læra? Jú, það er svo mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og láta ekki umhverfið og uppeldið skilgreina sig. Þannig er að við fáum skilaboð alls staðar að sem í sífellu innprenta okkur hver við séum og hvernig við eigum að vera. Ef við trúum því að við séum hæna en ekki örn, lifum við hænulífi. Allt uppeldið, alla skólagönguna, í vinnunni, hjónabandinu og áfram við uppeldi unganna okkar og þannig heldur þetta áfram kynslóð fram af kynslóð. Það er mikilvægt fyrir ykkur núna á þessum tímamótum sem þið standið nú á að hugsa: Ég er er það sem ég er og það sem ég vil verða, ég er td örn! Ég er búinn að ná því markmiði sem ég setti mér. Mér eru allir vegir færir. Himnarnir bíða! Þessu hugarfari getið þið náð fyrir áramót ef þið viljið, gúglið það bara, og þá strax er heimurinn orðinn að betri stað.

Annað sem þið getið gert er að leggja lóð á vogarskálar jafnréttis. Alvara lífsins er skammt undan, nú ætlið þið arnarungarnir að vinna eða stúdera, sinna fjölskyldu, koma ykkur upp þaki yfir höfuðið og um leið að njóta alls þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Það getur verið erfitt að koma þessu öllu fyrir í sólarhringnum. Því langar mig að minnast aðeins á þriðju vaktina sem hefur mikið verið í umræðunni sl vikur. 

Fyrsta vaktin er að vera í vinnu og fá fyrir það laun, önnur vaktin felst í heimilisstörfum og að sjá um börn og bú en þriðja vaktin felst í vera framkvæmdastjóri heimilisins. Sýna fyrirhyggju og hagsýni, redda pössun, sækja og skutla, hafa yfirsýn á fatastærðir heimilisfólks, muna eftir merkisdögum, starfsdögum, tilboðsdögum, tannlæknatímum, kaupa jólagjafir, skreyta, útbúa skógjafir, vita hvað er til í ísskápnum og svo endalaust framvegis. 

Þriðja vaktin krefst orku og einbeitingar, er launalaus og hún stendur allan sólarhringinn. Þetta er ósýnileg vinna og ósýnilegt álag, stundum kallað hugræn byrði (mental load) og kannski er stundum stutt í meðvirknina (sá sem ekki veit hvað meðvirkni er gerir sjálfum sér og heiminum stóran greiða með að gúgla það í dag). Svo vill til að oftast eru það konur sem taka þriðju vaktina, ekki alltaf en oftast. En er það þá ekki bara útaf því að konur eru skipulagsfrík og karlar bara slakir og stóla á að þetta reddist? Er það svo einfalt? Ýmsar rannsóknir sýna að álag á konum vegna heimilisstarfa og ábyrgðar á heimili og fjölskyldu hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra og framgang í starfi, veldur streitu og leiðir jafnvel til kulnunar. Svo þetta er samfélagslegt mál, eitt af lykilatriðum varðandi jafnrétti á vinnumarkaði og þetta þarf að tala um. Þetta er annað af þrennu sem við getum alveg breytt saman. Bæði þurfa karlar að taka meiri ábyrgð og konur að treysta þeim fyrir henni, þá verður allt betra í heimi hér.

Ég stend ekki lengur þriðju vaktina, vegna forréttindanna sem fylgja mínum virðulega aldri. Mér gefst tími til tómstunda og þær nota ég m.a. til að lesa í bók. (Sem er mikilvæg, sjálfstæð, frelsandi og skapandi athöfn til að þroska heilann, nokkrar mínútur á dag er milljón sinnum betra en ekkert og ég hvet ykkur til að taka ykkur tíma til þess, helst daglega). 

 

 

En um þessar mundir er ég að lesa bók sem heitir Vegabréf: íslenskt. 

Allt frá því höfundurinn Sigríður Víðis Jónsdóttir skoðaði landabréfabók á bókasafninu hér í FVA (hún útskrifaðist héðan vorið 1999) hefur veröldin heillað hana. Hún hefur ferðast mjög víða, ss til Afghanistan og Íraks og árið 2012 fór hún til Afríkuríkis sem heitir Búrkína Fasó sem starfsmaður Unicef. 

Erindið var að kynna sér aðstæður í gullnámu. (Næg verkefni fyrir Vinnueftirlitið þar). Þar eru engir frídagar, engir veikindadagar, ekkert stéttarfélag og engar öryggisreglur. Allt er gert með handafli. Börn síga djúpt ofan í jörðina til að höggva grjót með litlum hamri við vasaljós. Konur flokka grjótið og bera það á milli í skálum á höfðinu. Til að vinna gullið þarf síðan að mylja grjótið, blanda mulningnum saman við kvikasilfur eða blásýru sem gullagnir bindast og hita síðan gumsið yfir opnum eldi, þá gufa eiturefnin upp og eftir situr gullið. Svipað ferli er við að vinna granít úr jörðu í Búrkína Fasó, eiturgufur og steinryk eru yfir öllu undir brennandi sól. 

Einhver er að græða á þessu en það eru ekki börnin né kvenfólkið, fyrir vinnuna eru greidd lúsarlaun. Við á Vesturlöndum njótum þess síðan að geta keypt dót sem gull og granít er notað í, hræódýrt. 

Einn starfsmanna Unicef í landinu sem unnið hefur við hjálparstarf í Afríku í 20 ár sagði Sigríði frá því hversu mikið gott væri hægt að láta af sér leiða á stað eins og þessum. Ekki með því ryðjast af stað með alls konar patent lausnir, heldur: „Það besta sem þið getið gert (sagði hann) er að treysta okkur og gefa peninga. Þá getum við gert það sem þarf að gera.“ 

Því segi ég við ykkur útskriftarnemar, það þriðja sem þið getið gert til að láta gott af ykkur leiða og bæta heiminn í leiðinni er að velja ykkur málefni til að styrkja strax í dag og styrkið það eins lengi og þið mögulega getið. Bara eitt málefni sem styrkt er, ekki hátt framlag en reglubundið til langs tíma. Með því að styðja við hjálparstarf í heiminum erum við að gera hann betri fyrir okkur öll.

Gjótnámur heimsins eru margar og þær bíða ykkar núna! Vinnuaðstæður ykkar verða betri en í Búrkína Fasó, ég lofa ykkur því. Það er von mín að þið eigið framundan farsælan starfs- og námsferil, að þið lifið ekki hænulífi heldur takið flugið hiklaust sama hvað hver segir og ég bið ykkur að leggja góðu málefni lið, fyrir þúsund kall af laununum ykkar í nokkur ár má gera svo margt þar sem þörfin er brýnust.

Að lokum: hvað er það sem þið getið gert fyrir áramót til að bæta heiminn? Fyrst er það hugarfarið, þá jafnréttið og loks málefnið, veljið amk eitt af þrennu!

Kæru útskriftarnemendur, góðir gestir, kennarar og starfsfólk, ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og heillaríks nýárs.