Hákon Arnar knattspyrnumaður ársins 2022 hjá KSÍ – Arnór annar í röðinni

Leikmannaval KSÍ tilkynnti í dag hvaða leikmenn eru Knattspyrnufólk ársins 2022 hjá Knattspyrnusambandi Íslands. 

Þetta er í 19. sinn sem þetta val fer fram hjá KSÍ. 

Glódís Perla Viggósdóttir er knattspyrnukona ársins 2022, og Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er knattspyrnumaður ársins 2022. 

Arnór Sigurðsson, sem er einnig Akurnesingur, varð annar í þessu kjöri að þessu sinni í karlaflokki og Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki, varð þriðji. Hákon Arnar leikur með FCK í Kaupmannahöfn og Arnór leikur með sænska liðinu Nörrköping.

Eins og áður segir varð Glódís efst í þessu kjöri en hún leikur með Bayern München í Þýskalandi, Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Wolfsburg  í Þýskalandi varð önnur og Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals varð þriðja. 

Fjölmargir taka þátt í þessu kjöri og má þar nefna fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni.

Í umsögn KSÍ um Hákon Arnar segir:

Það má með sanni segja að Hákon Arnar Haraldsson hafi komið fram á sjónvarsviðið með miklum krafti á árinu. Á sínu fyrsta heila keppnistímabili í meistaraflokki vann hann dönsku úrvalsdeildina með FCK, komst alla leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem hann varð fjórði Íslendingurinn til að skora í keppninni, og svo lék hann fyrstu A-landsleiki sína, sjö talsins.

 

Í umsögn KSÍ um Arnór segir:

Arnór Sigurðsson lék með IFK Norrköping á síðastliðnu keppnistímabili á láni frá CSKA. Arnór lék frábærlega með sænska liðinu eftir að hann gekk til liðs við það í sumar, en þetta er í annað sinn sem hann leikur með félaginu. Hann lék 11 leiki í sænsku deildinni, skoraði í þeim sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Arnór lék níu leiki árinu með Íslandi og skoraði eitt mark, gegn Ísrael í júní.

 

Í umsögn KSÍ um Glódísi segir:

Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í fyrsta skipti. Hún hefur verið fastur hlekkur í vörn Bayern München og íslenska landsliðsins á árinu, líkt og áður. Á síðastliðnu keppnistímabili lenti Bayern München í öðru sæti í þýsku úrvalsdeildinni og komst í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Liðið situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Glódís Perla lék 11 leiki með landsliðinu á árinu, þar af var hún í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum liðsins á EM í Englandi.