Slysvarnardeildin Líf heldur áfram að auka öryggi íbúa á Akranesi 

Slysavarnadeildin Líf á Akranesi hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka öryggi íbúa á Akranesi. 

Nýverið gáfu samtökin hjartastuðtæki sem verða staðsett á starfsstöðvum Fjöliðjunnar – og voru 2 tæki afhent við formlega og hátíðalega athöfn um liðna helgi á jólagleði starfsmanna Fjöliðjunnar. 

Að auki fengu allir sem tóku þátt í jólagleðinni endurskinsmerki frá félaginu.

Fjöliðjan er með tvær starfsstöðvar og þar af leiðandi voru tvö hjartastuðtæki afhent. Á undanförnum misserum hefur Líf safnað fyrir og afhent slík tæki sem eru nú til staðar í Safnaðarheimilinu, Grundaskóla, Brekkubæjarskóla og eitt tæki er í Jónsbúð – sem er félagsaðstaða Slysavarnafélagsins.

Fjáraflanir slysavarnardeildarinnar eru af ýmsum toga. Um þessar mundir er deildin með Leiðisgreina og krossasölu – sem er ein af stóru fjáröflunum deildarinnar.

Kaffisala slysavarnardeildarinn á Sjómannadaginn er einnig í stóru hlutverki hvað varðar fjáröflun deildarinnar. Allur ágóði af fjáröflun sem Slysavarnardeildin Líf stendur á bak við rennur til góðra verka í samfélaginu á Akranesi.

Deildin gefur á hverju ári endurskinsmerki til nemenda í grunn – og leikskólum á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Útskriftarnemar í 10. bekk grunnskóla hafa fengið reykskynjara að gjöf frá deildinni í samvinnu við Sjóvá.

Börn sem koma í ungbarnaeftirlit á HVE fá pakka að gjöf frá deildinni þar sem er að finna upplýsingar um öryggi barna á heimilinu, endurskinsmerki og handunna gjöf frá félögum í deildinni. Sokkar, vettlingar, smekkur eða húfa hefur ratað í það verkefni deildarinnar.

Umferðaröryggi er einnig stór þáttur í verkefnum deildarinnar – og hefur Líf staðið að umferðaröryggis könnun um margra ára skeið í nærsamfélaginu í samvinnu við Samgöngustofu.

Hraðamælastaurarnir sem eru víðsvegar á Akranesi eru gjöf til samfélagsins frá deildinni og björgunarhringir á Breiðinni eru einnig frá Líf.

Björgunarfélag Akraness og Slysavarnardeildin Líf vinna náið saman og hefur Líf stutt við bakið á ýmsum verkefnum í unglingastarfi Björgunarfélagsins.

Félagsstarfið hjá Slysavarnardeildinni Líf er öflugt. Félagsvist er í Jónsbúð á fimmtudagskvöldum yfir vetrarmánuðina og félagsfundir eru haldnir með reglulegu millibili á tímabilinu september og fram í maí.