Kristín er á meðal þeirra 11 efstu í kjörinu á Íþróttamaður ársins 2022

Samtök íþróttafréttamanna opinberuðu í dag hvaða íþróttamenn enduðu í efstu tíu sætunum í kjöri samtakana á íþróttamanni ársins 2022. Úrslitin verða kunngjörð 29. desember.

 

 

Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakona, er á meðal þeirra sem koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2022 – en hún keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness. Kristín varð þriðja í þessu kjöri í fyrra.

Kristín er íþróttamaður Akraness – en hún hefur verið efst í í því kjöri undanfarin tvö ár. 

Kristín, sem er 38 ára, var á dögunum útnefnd sem kraftlyftingakona ársins 2022 hjá Kraftlyftingasamband Íslands, í annað sinn og annað árið í röð.

Kristín keppir í klassískum kraftlyftingum er rauði þráðurinn sá að keppt er án búnaðar. Ekki er leyfilegt að nota t.d. hnéhlífar, þrönga lyftingagalla eða lyftingabelti. Keppni í klassískum lyftingum hófst hér á Íslandi árið 2014 þegar byrjað var að skrá Íslandsmet í þessari grein kraftlyftinga.

Hún keppir í klassískum kraftlyftingum í -84kg flokki. Kristín vann silfurverðlaun á EM og HM og tvíbætti Evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu á árinu. Hún bætti auk þess íslandsmetin í hnébeygju, réttstöðulyftu, réttstöðulyftu single lift og samanlögðu. Kristín náði 110,27 IPF-GL stigum á árinu, en það er mesti stigafjöldi sem náðst hefur af íslenskum keppanda.

Ellefu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2022 eru í stafrófsröð:

 • Anton Sveinn McKee, sund.
 • Elvar Már Friðriksson, körfubolti.
 • Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti.
 • Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti.
 • Guðmundur Ágúst Kristjánsson, golf.
 • Hilmar Örn Jónsson, frjálsíþróttir.
 • Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingar.
 • Ómar Ingi Magnússon, handbolti.
 • Sandra Sigurðardóttir, fótbolti.
 • Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti.
 • Viktor Gísli Hallgrímsson, handbolti.

Efstu fjórir í kjörinu á þjálfara ársins:

 • Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta.
 • Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta.
 • Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta.
 • Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta.
 • Lið ársins:
 • Íslenska karlalandsliðið í handbolta.
 • Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta.
 • Valur, meistaraflokkur karla í handbolta.

Félagar í Samtökum íþróttafréttamanna eru nú 31 og tóku þeir allir þátt í kjörinu í ár. Kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni, liði og þjálfara ársins 2022 verður lýst í Hörpu 29. desember. Sýnt verður beint frá hófinu á RÚV klukkan 19:40.

Í ár gerðist það að tveir íþróttamenn urðu jafnir að stigum í 10. – 11. sæti. Reglur kjörsins segja aðeins til um hvað gera eigi séu tveir jafnir í 1. sæti. Reglurnar ná ekki yfir sætin fyrir neðan. Það eru því 11 íþróttamenn á topp listanum í ár. Það gerðist síðast árið 2000. Alls hefur það sjö sinnum gerst að topp 11 listi hefur verið birtur í stað topp 10. Árin 1963, 1978, 1982, 1984, 1985, 1988 og 2000 var topp 11 listi, þ.e. tveir jafnir í 10. sæti.

Þá gerðist það einnig að tveir þjálfarar urðu jafnir í þriðja sæti í kjörinu um þjálfara ársins. Með sömu rökum er því birtur listi yfir fjóra efstu þjálfara kjörsins í ár.