Pistill: Hugsum hærra – Perla Faxaflóa

María Karen Sigurðardóttir: 
Akurnesingur (búsett í Reykjavik), forvörður og stjórnsýslufræðingur skrifar:

 

Akraneskaupstaður fékk arkitektinn Guðmund L. Hafsteinsson, núverandi sviðstjóra húsasafns Þjóðminjasafn Íslands, til að gera bæjar- og húsakönnun á Skipaskaga árið 2009 og ber hún heitið Perla Faxaflóa. 

Eins og kemur fram í formálanum er slík könnun gerð til að afla „byggingarlistalegrar þekkingar á bæjarumhverfi og einstökum húsum sem studd er staðfræðilegum og sagnfræðilegum athugunum.“ 

Einnig kemur fram að markmiðið sé að „tryggja eins og mögulegt er að ákvarðanir sem varða breytingar á byggð eða einstökum húsum séu teknar með þekkingu á því gildi sem þau hafa fyrir sögu og byggingarlist“. 

Ef við stöldrum við orðin saga og byggingarlist þá eru einmitt þau hugtök sem brenna á því fólki sem berst fyrir verndun og uppbyggingu miðbæjar Akraness í greinunum sem nú þegar hafa verið skrifaðar í Skessuhorn og Skagafréttir, svo ekki sé minnst á þá alla sem hafa tjáð sig um málið á facebook. Lengi var það svo að þeir sem börðust fyrir verndun húsa og annarra sögulegra minja fengu á sig það orð að þeir væru afturhaldssamir, og ýmislegt fengu Torfusamtökin að heyra, sem stofnuð voru 1972, þegar þau börðust fyrir verndun Bernhöftstorfunnar sem nú er eitt helsta prýði miðbæjar Reykjavíkur, eins og Ólafur Páll Gunnarsson kemur inn á í kjarngóðri grein sinni „Akranes – gamli bærinn og sagan. 

Það er gömul saga og ný að eigendur húsa hafa lengi notað þá aðferð að láta hús sín drabbast niður, sagt þau ónýt svo hægt sé að rífa og byggja nýtt í staðinn – í raun er ekki til neitt sem heitir ónýtt hús, því það er hægt að gera við allt ef viljinn er fyrir hendi, líka það sem telst myglað, þó vissulega sé mygla í steinsteypu erfiðari viðureignar en í öðrum efnum. 

Hvað varðar Vesturgötu 62 þá hefur það komið fram í innsendum greinum að húsið eigi sér merka sögu sem tengist íþróttum og skólahaldi á Akranesi. 

Akranes er einmitt sá bær sem þekktur er fyrir íþróttir. 

Það er alkunna að íþróttir efla líkama, hug og anda og því er ekki að undra að stefnt sé nú á að byggja hótel, baðlón og heilsulind við Langasand, sem er ein helsta perla Akurnesinga. En samtvinnuð uppbygging og vernd eru einmitt þau verðmæti sem íbúar og ferðamenn um allan heim sækjast í, og dæmi um það er vitinn sem Hilmar Sigvaldason á heiðurinn af því hann hefur með þolgæði sinni og einstakri framsýni dregið að fjölda ferðamanna ár hvert og var vitinn valinn af lesendum hins virta breska dagblaðs Guardian einn af áhugaverðustu áfangastöðum veraldar. 

Áhrif skipulagsmála á heilsu hefur verið rannsóknarefni Páls Jakobs Líndals doktors í umhverfissálfræði og hann hefur m.a. rannsakað samspil umhverfis og fólks, og hvaða áhrif manngert umhverfi hefur á heilsu og líðan almennings. Í Fréttablaðinu 24. september sl. er haft eftir honum að fólk vilji „sjá fjölbreytileika í umhverfinu og að það sé tenging við sögu, menningu og náttúru. Þetta eru atriði sem vísindin hafa sýnt með nokkrum skýrum hætti að virka.“ 

Að lokum; hvað varðar Vesturgötu 62 þá þarf að fara fram samtal á milli bæjarbúa og bæjaryfirvalda þegar kemur að verndun og framtíðarmöguleikum hússins því húsið á svo sannarlega framtíð fyrir sér.  

Afar mikilvægt er að „breytingar á byggð eða einstökum húsum séu teknar með þekkingu á því gildi sem þau hafa fyrir sögu og byggingarlist“ eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu Akraneskaupstaðar: Perla Faxaflóa. 

Hér með hvet ég  bæjaryfirvöld til að hugsa hærra þegar kemur að fjölbreyttri byggð Akraness.

 

María Karen Sigurðardóttir: Akurnesingur (búsett í Reykjavik), forvörður og stjórnsýslufræðingur.