Samantekt frá viðburðaríkum degi hjá forsetahjónunum í opinberri heimsókn þeirra á Akranes

Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson og frú Eliza Reid, komu í opinbera heimsókn á Akranes í dag. Dagurinn var viðburðaríkur og komu forsetahjónin víða við í heimsókn sinni á köldum desember degi á Akranesi. 

Tekið var á móti við Hvalfjarðargöng rétt fyrir kl. 8:30 í morgun þar sem forsetabifreiðin fékk lögreglufylgd inn að bæjarskrifstofu Akraness við Dalbraut. Þar tók Steinar Adolfsson, sviðsstjóri stjórnsýslu – og fjármálasviðs, tók á móti forsetahjónunum. Steinar tók við því hlutverki þar sem að Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri gat ekki tekið þátt í að taka móti gestunum vegna veikinda. 

Formleg móttaka fór fram á bæjarskrifstofunni þar sem að forsetahjónunum var sýnd starfsemina í húsinu ásamt því að kynna fyrir þeim bæjarstjórn og starfsfólk.  

Í samkomusal á bæjarskrifstofu fór fram athöfn þar sem starfsfólk Akraneskaupstaðar, félagsstarfs Akraneskaupstaðar og Fjöliðjunnar voru viðstödd ásamt meðlimum frá FEBAN.

 

Kór eldri borgara söng þar tvö lög og léttar veitingar voru í boði eftir það atriði. Fjölmargir nýttu tækifærið til þess að fá mynd af sér með forsetahjónunum sem tóku þeim óskum vel. 

Bæjarstjórn Akraness fundaði stuttlega með forsetanum þar sem að Karen Jónsdóttir frá Café Kaju bauð upp á lífræna bygg-jógúrt og var með örstutta kynningu á starfi sínu.

Forseti Íslands hefur í mörg ár stundað sjósund með reglulegu millibili. Hann nýtti tækifærið í dag að baða sig í sjónum við Langasand ásamt félögum úr Sjóbaðsfélagi Akraness. Hópurinn yljaði sér í Guðlaug eftir sjósundið. 

Skaginn 3X var næsti viðkomustaður forsetahjónanna. Þar sem að Halldór Jónsson tók á móti hópnum og kynnti fyrir þeim starfsemina á svæðinu. 

Forsetinn fór þar næst í heimsókn á hjúkrunar – og dvalarheimilið Höfða þar sem að hann snæddi hádegisverð. Forsetahjónunum var í kjölfarið fylgt á öll heimil hjúkrunarheimilisins – en þau eru 6 alls. 

Leikskólinn Garðasel var einnig viðkomustaður í heimsókninni. Þar tóku öll 5 ára börn sem eru í leikskólunum fjórum á Akranesi á móti forsetahjónunum. Þau sungu fyrir þau tvö lög og tóku Guðni Th. og Eliza vel undir í flutningnum. Söngatriðið fór fram úti við nýjan og glæsilegan leikskóla – og að því loknum var boðið upp á kakó og piparkökur. 

Forsetahjónin héldu áfram að heimsækja skóla á Akranesi því Brekkubæjarskóli var næstur í þéttri dagskrá heimsóknarinnar. Nemendur frá Brekku – og Grundaskóla tóku á móti forsetahjónunum. Trommusveit Brekkubæjarskóla tók á móti þeim, nemendur sýndu verkefni sem þau hafa unnið að og skólakór Grundaskóla flutti nokkur lög. Þekjan, frístundaheimili, fékk einnig heimsókn frá forsetanum. 

Forseti Íslands er mikill íþróttaáhugamaður og hann fékk góðar móttökur í nýja fimleikahúsinu þar sem að iðkendur úr Fimleikafélagi Akraness fengu tækifæri til að sýna listir sínar og ræða við forsetahjónin. Forsetinn laumaði sér í einn kollhnís án þess að það næðist að skjalfesta það með ljósmyndi eða hreyfimynd – en stíllinn var framúrskarandi.  

Heilbrigðisstofnun Vesturlands, HVE, var næst í röðinni hjá forsetanum – þar sem að Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir tók á móti hópnum. 

Stór hluti heimsóknarinnar fór fram í Nýsköpunarmiðstöðinni á Breið. Þar tók Gísli Gíslason, stjórnarformaður félagsins á móti forsetahjónunum. Hann kynnti fyrir þeim starfsemina og fyrirtækið Running Tide var einnig með kynningu.

Að því loknum tók við hátíðardagskrá í tengslum við 80 ára afmæli Akraneskaupstaðar. Viðburðurinn var opinn fyrir íbúa Akraness og var töluverður fjöldi sem lagði leið sína á þann viðburð. Forsetinn flutti ávarp og hann færði Akurnesingum mynd að gjöf – ljósmynd frá opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur forseta á Akranes árið 1992. 

Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar, flutti einnig ávarp og færði forsetanum bókagjafir. Nemendur úr Tónlistarskóla Akraness voru með tónlistaratriði og boðið var upp á veitingar. 

Forsetanum var boðið í kvöldverð á veitingastaðnum Nítjánu á Garðavöllum. Guðni Th. Jóhannesson lauk heimsókninni með því að hlýða á tónleikana Jólafriður hjá Kór Akraneskirku sem fram fóru í Akraneskirkju í kvöld.