Karlalið ÍA í knattspyrnu hefur samið við fjölmarga leikmenn á undanförnum vikum

Karlalið ÍA í knattspyrnu hefur samið við fjölmarga leikmenn á undanförnum vikum fyrir átökin sem eru framundan í næst efstu deild Íslandsmótsins 2023. 

ÍA féll úr efstu deild á síðasta keppnistímabili.

Talsverðar breytingar verða á leikmannahópnum en Jón Þór Hauksson er þjálfari liðsins. 

Guðlaugur Baldursson, aðstoðarþjálfari liðsins, er hættur – en ekki hefur verið greint frá því hver verður aðstoðarmaður Jóns Þórs á næstu leiktíð.

Skoski varnarmaðurinn Alex Davey  hefur samið á ný við ÍA en hann hefur leikið með ÍA unfanfarin ár. Í lok síðasta tímabils var samning Davey rift – líkt og hjá öllum erlendu leikmönnum liðsins. 

Framherjinn Viktor Jónsson samdi einnig á ný við félagið en hann var nánast ekkert með á síðustu leiktíð vegna meiðsla.

Framherjinn Sigurður Hrannar Þorsteinsson, miðjumaðurinn Marteinn Theódórsson og varnarmennirnir Árni Salvar Heimisson og Hlynur Sævar Jónsson hafa allir samið á ný við uppeldisfélagið.

Sigurður Hrannar kom um mitt síðasta tímabil á ný til ÍA eftir að hafa leikið með liði Gróttu í næst efstu deild. 

Marteinn var frá vegna meiðsla stóran hluta af síðasta ári – en hann hefur m.a. leikið með Víkingum úr Ólafsvík í næst efstu deild. 

Varnarmennirnir Arnleifur Hjörleifsson og Hákon Ingi Einarsson eru komnir á ný á Skagann eftir að hafa leikið með liði Kórdrengja í næst efstu deild undanfarin tímabil.