Frá árinu 1997 hefur núgildandi deiliskipulagi á Smiðjuvöllum verið breytt alls 16 sinnum. Það eru allar líkur á því að skipulagið taki breytingum enn á ný – en fyrirhugað er að reisa veglegt hús á lóð við Smiðjuvelli 12-22. Í þeirri byggingu er gert ráð fyrir þéttri blandaðri byggð, íbúða – og atvinnustarfsemi.
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 24. janúar s.l. að að skipulagslýsing vegna Þróunarsvæðis C verði auglýst og að lóðin Smiðjuvellir 32 verði hluti skipulagslýsingarinnar.
Hugsanleg aðalskipulagsbreyting felst í því að 2,4 hektara svæði verður afmarkað sem íbúðarbyggð og athafnasvæðið á Smiðjuvöllum minnkað að sama skapi. Sett yrðu ákvæði um blandaða byggð með atvinnustarfsemi á jarðhæð. Nýtingarhlutfall og húsahæðir verða skilgreindar í deiliskipulagi, sem auglýst verður fljótlega.