„Það eru spennandi tímar framundan og við viljum efla grasrótarstarf í listum eins og okkur er frekast kostur,“ segir Smári Hrafn Jónsson formaður Listfélags Akraness sem nýverið var sett á laggirnar. Félagið fékk á dögunum styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands sem verður nýttur í stórt verkefni á haustdögum 2023.
Smári segir að samsýningin Falið afl sem sett var upp á Vökudögum 2022 hafi kveikt hugmyndina að stofnun félagsins.
„Edda Agnarsdóttir setti upp sýninguna Falið afl og að þeirri sýningu lokinni var ákveðið að stofna félag listamanna hér á Akranesi. Markmiðið er að reyna að ná til sem flestra listamanna sem starfa hér og einnig þeirra sem eru í raun í felum með sína list, sem kom svo vel í ljós í Falið afl þar voru margir að sýna sína list í fyrsta sinn,“ segir Smári Hrafn en stjórn félagsins skipa Erna Hafnes ritari, G. Ása Degen Guðmundsdóttir gjaldkeri, Lára Magnúsdóttir og Cathrine Soffía Guðnadóttir meðstjórnendur.
Markmið stjórnar er að ná til sem flestra listamanna, sem eru margir hér, og sameina þá undir einum hatti í Listfélagi Akraness. Styrkurinn frá Uppbyggingarsjóði rennur í sjóð hjá félaginu sem er ætlaður fyrir stórt verkefni næsta haust.
„Við erum stórhuga og erum nú þegar búin að ráða sýningarstjóra fyrir verkefnið, Sara Hjördís Blöndal, sem hefur víðtæka reynslu af uppsetningu listasýninga og sýningarstjórn.
Boðað hefur verið til formlegs stofnfundar félagsins fimmtudaginn 26. janúar kl 20.00 í sal Brekkubæjarskóla.
Tilgangur félagsins er að efla kynni og stuðla að samvinnu listamanna á Akranesi, m.a. með sýningum.
Efla umræðu um listir og auka þekkingu og fræðslu.
Efla vitund bæjarbúa um þá miklu grósku sem er í listum á Akranesi
Félagið er óhagnaðardrifin félagasamtök listamanna á Akranesi
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að efna til samsýninga og standa fyrir ýmsum listviðburðum.
Félagsaðild. Öllum þeim sem náð hafa 18 ára aldri og stunda listir að einhverju tagi er heimilt að ganga í félagið.