Sigurður Tómasson Íslandsmeistari öldunga í pílukasti

Íslandsmót öldunga í pílukasti fór fram laugardaginn 28. janúar í Pílusetrinu Tangarhöfða. Alls voru 30 keppendur skráðir til leiks.

Skagamaðurinn Sigurður Tómasson, frá Pílufélagi Akraness, stóð uppi sem sigurvegari í karlaflokki – og er Íslandsmeistari í öldungaflokki í pílukasti 2023. 

Á vef Pílusambands Íslands segir að mótið hjá „Siggi Tomm“ hafi verið stórkostlegt. Hann sigraði í öllum 5 leikjum sínum í riðlakeppninni með aðeins einn tapaðan legg (15:1). 

Spilamennska Sigga átti bara eftir að verða betri því hann tapaði ekki legg í 16 manna, 8 manna og undanúrslitum. Í úrslitaleiknum fékk Siggi loksins mótspyrnu því eftir stórkostlegt oddaleiks-einvígi við Guðjón Hauksson, stóð Skagamaðurinn uppi sem sigurvegari 5-4 og þar með Íslandsmeistari öldunga 2023.

Petrea KR Friðriksdóttir, úr Pílukastfélagi Reykjavíkur átti einnig frábært mót en eins og Siggi, þá vann hún alla sína leiki í riðlakeppninni og sjálfan úrslitaleikinn 4-0 og er því Íslandsmeistari öldunga 2023.

Nánar á vef Pílusambandsins.