Frístundastarf Grundaskóla flytur og fær nýtt nafn

Nýverið hófust flutningar frístundar Grundaskóla yfir í húsnæðið sem áður hýsi leikskólann Garðasel. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Grundaskóla. 

Þar kemur fram að unnið verði að ýmsum endurbótum á húsnæðinu á næstu dögum. Breytingarnar sem verða á frístundastarfinu verða byltingarkenndar segir í frétt á vef skólans – en Grundasel er nafnið á frístundarhúsinu.  

Starfsemi leikskólans Garðasels hefur verið flutt í nýjan leikskóla í Skógarhverfi. 

Á undanförnum misserum hafa ýmsar áskoranir verið til staðar hvað varðar húsnæðismál Grundaskóla.  Í fréttinni segir að skólinn hafi glímt við mestu húsnæðisvandræði í skólasögu bæjarfélagsins. 

Á allra næstu dögum verður útboð á allsherjarendurbótum á C-álmu skólans opnuð – en gríðarlegt verkefni er framundan í endurbótum á elsta hluta skólans. 

Lausar kennslustofur hafa verið settar upp á skólalóð Grundaskóla til að leysa húsnæðismál skólans. Tafir hafa orðið á afhendingu slíkra bygginga og verður frístundamiðstöðin Garðavellir við golfvöllinn nýtt undir skólastarf Grundaskóla næstu mánuði – þar til að fleiri lausar kennslustofur verða fullkláraðar í mars á þessu ári.

Nánar á vef Grundaskóla – smelltu hér.