Bæjarráð Akraness hefur lýst yfir áhuga á að endurgera Árnahús við Sólmundarhöfð.
Í bókun ráðsins kemur fram að verkefnið gæti orðið að samfélagsverkefni þar sem að ýmsir aðilar myndu leggja hönd á plóginn.
Í fundargerð frá síðasta fundi ítrekar bæjarráð vilja sinn til endurgerðar Árnahúss í samvinnu við Minjastofnun Íslands og að framkvæmdinni verði háttað þannig að það hindri ekki stækkunarmöguleikann fyrir Höfða, hjúkrunar og dvalarheimili.
Fyrir liggur drög að kostnaðaráætlun og ljóst að verkefnið er kostnaðarsamt og mun taka einhver ár í uppbyggingu en vilji bæjarráðs er til að kannaðir verði samstarfsmöguleikar við ýmsa aðila svo sem Fjölbrautarskóla Vesturlands þar sem nemendur á tréiðnaðarbraut undir handleiðslu kennara gætu komið að verkefninu sem og að leitað verði samstarfs við áhugasama einstaklinga um endurbyggingu eldri húsa.
Verkefnið gæti orðið nokkurs konar samfélagsverkefni, keimlíkt því sem gert var í verkefninu „karlar í skúrnum“ sem tekist hefur með ágætum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins og heimilar nýtingu þess fjármagns til verkefnisins sem greitt var Akraneskaupstað vegna tjóns sem varð á húsinu þann 10. maí 2021 og greitt út á árinu 2022 en um var að ræða greiðslu að fjárhæð alls kr. 3.750.000.
Hér fyrir neðan eru myndir frá tillögu sem Jónas Lövdal lagði fram árið 2018 um Árnahús.