Fréttavefurinn skagafrettir.is fór í loftið í lok ársins 2016 og er því að hefja sitt sjöunda starfsár.
Frá upphafi hafa fréttir af því sem gæti lýst upp samfélagið á Akranesi með jákvæðum hætti – verið rauði þráðurinn í fréttaflutningi Skagafrétta.
Í dag eru í fréttasafni Skagafrétta rúmlega 5000 fréttir – og flestar þeirra sólarmeginn í tilverunni.
Fréttir sem eru skrifaðar á „skrifstofu Skagafrétta“, sem er staðsett við stofuborð.
Fréttir úr samfélaginu okkar skrifaðar þegar tími gefst til meðfram „alvöru vinnu“ og öðrum verkefnum.
Skagafréttir hefur aldrei verið með starfsmann á launum, fréttavefurinn fær ekki fjölmiðlastyrki frá ríkisvaldinu eða uppbyggingarsjóðum sveitarfélaga.
Sterkur hópur stuðningsaðila í bæjarfélaginu, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, hafa haldið lífi í verkefninu með ómetanlegum hætti.
Takk fyrir stuðninginn.
Frá því að vefurinn fór í loftið þann 10. nóvember 2016 hefur fjölmargt sem gæti verið áhugavert umfjöllunarefni farið framhjá okkur hér á Skagafréttum. Það mun örugglega gerast aftur og aftur.
Það er krefjandi verkefni fyrir fáa aðila að ná utan um allt það fjölbreytta mannlíf sem er til staðar á Akranesi.
Samkeppnin um athygli er mikil í nútímasamfélagi – og það er ekki sjálfsagt að allt sem sagt og skrifað er á samfélagsmiðlum nái til allra.
Þið lesendur góðir getið hinsvegar aðstoðað okkur með því að vekja athygli á því sem ykkur þykir áhugavert og fréttnæmt.
Það gerir þið með því að senda tölvupóst á [email protected] eða í gegnum fésbókarsíðu Skagafrétta.
Og við erum líka með síma – 864-1865.
Við erum að gera okkar allra besta á þessu sviði og með ykkar aðstoð er hægt að gera enn betur.
Eins og áður hefur komið fram eiga bæjarfréttamiðlar undir högg að sækja í samkeppni á auglýsingamarkaði.
Sú staða er flókin – þar sem að erlend stórfyrirtæki hafa náð yfirhöndinni hvað varðar auglýsingar á netmiðlum.
Þessi barátta mun halda áfram en þið lesendur og íbúar á Akranesi eru helsti styrkur bæjarfréttamiðla.
Þið getið sýnt þann styrk í verki með því að styðja við bakið á bæjarfréttamiðlinum – nánar hér.
Bestu kveðjur, og takk fyrir allar heimsóknirnar: Sigurður Elvar Þórólfsson, eigandi og ritstjóri Skagafrétta.