Hátt hlutfall íbúa á Akranesi iðkar íþróttir hjá félögum ÍA – Flestir stunda fimleika  

Alls eru rúmlega 3.300 íbúar á Akranesi 6 ára og eldri skráðir sem iðkendur hjá þeim íþróttafélögum sem eru undir regnhlíf Íþróttabandalags Akraness, ÍA. 

Þetta gerir um 46% hlutfall allra íbúa á Akranesi sem eru 6 ára og eldri. 

Í gögnum frá ÍA eruð iðkendur taldir í hverri grein en ekki út frá kennitölum. Iðkandi sem stundar t.d. tvær greinar er því talin hjá báðum íþróttafélögunum í þessum gögnum. Í þessum tölum vantar tölur frá Hestamannafélaginu Dreyra og íþróttafélaginu Þjóti. Í samantekt ÍA verða iðkendur að stunda íþróttagreinina í 10 vikur samfellt. Iðkendur sem taka þátt í styttri námskeiðum eru ekki taldir með í þessum gögnum. 

Fimleikafélag ÍA, FIMÍA, er fjölmennasta íþróttafélagið á Akranesi með 856 iðkendur og þar af eru 571 á aldrinum 6-18 ára sem er 53% af heildarfjölda íbúa á Akranesi sem eru á aldrinum 6-18 ára. 

Fjölgunin á milli ára í aldursflokknum 6-18 ára er 96 frá árinu 2021. Af þessum 856 iðkendum eru 774 búsettir á Akranesi eða rúmlega 90%. 

Golfklúbburinn Leynir er næst fjölmennasta íþróttafélagið á Akranesi með 759 iðkendur. Iðkendur sem eru eldri en 18 ára eru fjölmennastir í golfíþróttinni. Alls eru 46 iðkendur á aldrinum 6-18 ára skráðir í gagnasafni ÍA á árinu 2022. Í þessum aldursflokki fækkaði um 31 iðkanda á milli ára hjá Leyni. Um 80% félagsmanna í Leyni eru búsettir á Akranesi eða í póstnúmeri 300. 

Í þriðja sæti yfir fjölmennustu íþróttafélögin á Akranesi er Knattspyrnufélag ÍA. Þar eru 578 iðkendur. Í aldurshópnum 6-18 ára eru alls 472 iðkendur og fjölgaði þeim um 162 frá árinu 2021.  

Í þeim gögnum sem ÍA hefur í dag eru alls 2674 iðkendur hjá ÍA skráðir með heimilsfang í póstnúmeri 300 eða um 81% af öllum iðkendum. Í póstnúmeri 301 eru alls 124 iðkendur eða tæplega 4% og í öðrum póstnúmerum eru 509 iðkendur sem er um 15% af heildinni.