Að Vestan kveður samhliða lokun fjölmiðilsins N4

Fjölmiðlafyrirtækið N4 ehf. sem staðsett er á Akureyri hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá N4 sem er í heild sinni hér fyrir neðan. 

Hlédís Sveinsdóttir og Heiðar Mar Björnsson hafa á undanförnum árum verið með öfluga umfjöllun um Vesturland í þáttunum Að Vestan á N4 – og er þakkar Hlédís áhorfendum fyrir samfylgdina í færslu sinni á fésbókinni. 

„Það hafa verið algjör forréttindi að hitta allt það góða fólk sem hefur gefið af sér í Að vestan. Takk fyrir traustið kæru viðmælendur og takk fyrir samfylgdina kæru áhorfendur ,“ skrifar Hlédís en innslög þáttanna Að Vestan sem birt hafa verið hér á Skagafréttum hafa notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina.  

Gjaldþrot N4 hefur legið í loftinu í nokkra mánuði en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að halda rekstrinum gangandi án árangurs. Endurspeglar niðurstaðan þá erfiður stöðu sem bæjar – og héraðsfréttamiðlar á Íslandi búa við í harðri samkeppni á auglýsingamarkaði. 

Tilkynning N4 er hér í heild sinni.

Fjölmiðlafyrirtækið N4 ehf. sem staðsett er á Akureyri hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur. 

N4 hefur framleitt íslenskt efni undanfarin 15 ár. Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni. 

Rekstur fjölmiðils eins og N4 hefur byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi.  Fyrir það á starfsfólkið mikið hrós skilið. 

Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.