ÍA og Sindri frá Höfn í Hornafirði áttust við í kvöld á Íslandsmótinu í körfuknattleik – næst efstu deild í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði liðin á lokaspretti Íslandsmótsins þar sem að sæti í úrslitakeppninni er í boði.
Í stuttu máli þá náðu Skagamenn sér aldrei á strik í þessum leik – og gestirnir fóru heim með 2 stig í farteskinu eftir 93-72 sigur.
Skotnýting Skagamanna var alls ekki góð og þá sérstaklega í 3-stiga skotunum þar sem að leikmenn ÍA voru með 21% nýtingu í 29 tilraunum.
ÍA missti af stóru tækifæri að blanda sér í baráttunu um fimm efstu sætin og þar með sæti í úrslitakeppninni.
Sindri er í þriðja sæti með 26 stig en Álftanes og Hamar úr Hveragerði eru jöfn í efsta sæti – sem gefur beina leið í efstu deild á næsta tímabili.
Liðin í sætum 2-5 keppa um eitt laust sæti í efstu deild í úrslitakeppninni.
ÍA á enn von um að koma sér í hóp fimm efstu framundan eru spennandi leikir í þeirri baráttu.
Skagafréttir voru á leiknum og hér má sjá myndasafn frá leiknum.
Keppnisfyrirkomulagið í 1. deild karla er með þeim hætti að efsta lið deildarinnar tryggir sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Liðin í sætum 2-5 keppa í úrslitakeppni um eitt laust sæti.
Það eru fjórir leikir eftir hjá ÍA í deildinni.
Hamar frá Hveragerði kemur í heimsókn föstudaginn 17. febrúar.
ÍA leikur gegn liði Selfoss á útivelli þann 24. febrúar og á heimavelli gegn Ármenningum þann 3. mars.
Í lokaumferðinni mætir ÍA liði Fjölnis á útivelli 6. mars.