Í Brekkubæjarskóla hafa nemendur í elsta árgangi skólans, 10. bekk, unnið að ýmsum þemaverkefnum í vetur. Nýverið var níundi áratugur síðustu aldar verkefnið í þemavinnunni.
Í frétt á heimasíðu Brekkubæjarskóla kemur fram að í þemanámi er tiltekið viðfangsefni skoðað út frá mörgum námsgreinum sem eru samþættar í fjölbreytt verkefni. Í nýjasta þema tíunda bekkjar var níundi áratugur síðustu aldar (árin 1980-1989) skoðaður út frá þeirri menningu og heimsviðburðum sem gerðust á þessum árum. Má þar nefna kjör Vigdísar Finnbogadóttur, leiðtogafundurinn í Höfða, morðið á John Lennon og tónlist Bubba Morthens.
Í lok lotunnar spreyttu nemendur sig á þeirri íþrótt sem var afar vinsæl á níunda áratugnum, þolfimi eða Aerobik!
Eins og sjá má á þessum myndum var mikil ánægja með íþróttatímann og mættu nemendur í búningum í anda níunda áratugarins