Fjölmennur hópur sundfólks úr röðum Sundfélags Akraness tók þátt á Gullmóti KR sem fram fór um liðna helgi. Alls tóku 32 frá ÍA þátt en mótið hefur verið í dvala undanfarin tvö ár vegna heimsfaraldurs og var mikil tilhlökkun hjá keppendum að fá tækifæri til þess að taka þátt á ný.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness.
Yngstu keppendurnir frá ÍA voru 8 ára og flestir keppendur á þessu móti eru að stíga sín fyrstu skref á alvöru sundmóti. Sundmótið er stór þáttur í upplifunnni en keppendur fá einnig tækifæri til þess að gista og upplifa alvöru mótsstemningu.
Mótið fór fram í Laugardalslaug – keppnislauginni sem er innanhúss. Það eru því mikil viðbrigði fyrir keppendur frá Akranesi að fara úr 12.5 metra Bjarnalaug í risastóra 50 metra keppnislaug í Laugardal.
Sundfólkið úr ÍA náði flottum árangri og þá sérstaklega hjá þeim sem kepptu í eldri aldursflokkunum.
Kristján Magnússon náði þriðja sæti í opnum flokki í 50 m. skriðsundi á tímanum 24.91 sek. sem er nýtt mótsmet í unglingaflokki.
Enrique Snær Llorens bætti Akranesmetið í 50m baksundi á 28.64, gamla metið átti Kristján frá RIG í ár á tímanum 29.16.
Eitt skemmtilegasta við Gullmót KR er super-challenge í 50m flugsundi, en á því er mikil stemning, sundið er synt að kvöldi til með tilheyrandi ljósadýrð og stemningu.
Alls fengu 7 keppendur frá ÍA tækifæri í ár á Super- challenge og þrír af alls af 8 keppendum í unglingaflokki voru frá ÍA.
Einar Margeir sigraði í unglingaflokki á nýju Akranesmeti á 25.97 sek., en gamla metið átti hann sjálfur frá RIG í ár.
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir endaði í 3. sæti í fullorðinsflokki með frábæra bætingu á tímanum 29.21 sek. Guðbjörg Bjarteu endaði líka í 2. sæti í 50 m. skriðsundi.
Kajus Jatatus var í 2 sæti í flokki 13. ára og yngri og bætti sig um 3 sekúndur. Kajus átti mjög góða helgi, frábærar bætingar og synti til fjölmargra verðlauna.
Kristján Magnússon og Guðbjarni Sigþórsson bættu árangur sinn í 50 m flugsundi og enduðu í 4. og 6 sæti í Super-challenge.
Enrique Snær Llorens endaði í 6. sæti í fullorðins flokki og bætti árangur sinn í þessari grein.
Viktoria Emilia Orlita bætti einnig árangur sinn og endaði í 8 sæti. Hún vann einnig til bronsverðlauna í 200 m. bringsundi.