Í dag fer fram fundur hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þar sem að samskipti verða rauði þráðurinn í umræðunni.
Á fundinum mun allt starfsfólk skólans ásamt fulltrúum nemenda fjalla um samskipti – og þann 9. mars verður haldinn svokallaður lýðræðisfundur þar sem vinna fundarins í dag verður kynnt enn frekar. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu FVA.
Þar kemur fram að með samskiptum er átt við ýmis viðbrögð sem við sýnum við hegðun annarra og sem aðrir sýna gagnvart hegðun okkar.
Stundum í töluðu máli, stundum með látbragði, stundum í tölvupósti eða skilaboðum.
Samskipti geta verið flókin og ef um samskiptavanda er að ræða getur hann verið af ýmsum toga.
Saman leitumst við við að tryggja vönduð samskipti með samskiptasáttmála sem flestir á vinnustaðnum/skólanum koma að og verður aðgengilegur á vef skólans. Þegar sáttmálinn liggur fyrir er það sameiginleg ábyrgð okkar allra að vinna saman að því að hann sé virtur.