Oliver Stefánsson samdi við Íslandsmeistaralið Breiðabliks

Oliver Stefánsson mun leika með Íslandsmeistaraliði Breiðabliks á næstu leiktíð – en Skagmaðurinn hefur gert samning við félagið út árið 2025. 

Oliver er fæddur þann 3. ágúst árið 2002 og verður því 21 árs á þessu ári. 

Hann lék með ÍA á síðustu leiktíð þar sem hann var í láni frá sænska liðinu Norrköping. Oliver gerði starfslokasamning við sænska félagið nýverið – en hann gekk í raðir Norrköping árið 2018 – þá 16 ára gamall. 

Varnarmaðurinn sterki glímdi við erfið meiðsli og veikindi á meðan hann var í herbúðum Norrköping.

Hann var lánaður til ÍA í byrjun síðasta árs – með það að markmiði að koma sér af stað eftir langa fjarveru frá keppnisfótbolta. 

Oliver lék alls 23 leiki með ÍA í Bestu deildinni – en liðið féll úr þeirri deild í lok tímabilsins í fyrra. 

Hjá liði Breiðabliks hittir Oliver fyrrum liðsfélaga sinn úr ÍA, Eyþór Aron Wöhler, sem var markahæsti leikmaður ÍA á síðustu leiktíð. Eyþór Aron gerði tveggja ára samning við Breiðablik eftir síðasta keppnistímabil.