Blikksmiðja Guðmundar myndar stemninguna enn og aftur á Öskudaginn

Blikksmiðja Guðmundar hefur á undanförnum árum verið einn vinsælasti og heitasti staðurinn hjá yngri kynslóðinni á Akranesi á Öskudaginn.

Þar á bæ hafa starfsmenn tekið vel á móti börnum á þessum hátíðisdegi og í ár verður engin breyting þar á. 

Öskudagurinn er á morgun, miðvikudaginn 22. febrúar 2023

Emil Sævarsson framkvæmdastjóri Blikksmiðju Guðmundar segir í samtali við Skagafréttir að Öskudagurinn skipti miklu máli fyrir starfsfólkið – og þar ríkir mikil tilhlökkun og spenna.  

„Það verður söngvakeppni líkt og á undanförnum árum og veitt verðlaun fyrir besta lagið. Einnig verða veitt verðlaun fyrir flottasta „heimagerða“ búninginn. Við viljum sjá sem flesta á þessum degi en það verður opið frá 13-15. Fyrir okkur hér á verkstæðinu er skemmtilegt að hafa tök á því að opna aðeins inn til okkar – og leyfa krökkunum að sjá verkstæðið í leiðinni,“ segir Emil.

Eins og áður segir eru ýmsar keppnir í gangi hjá Blikksmiðju Guðmundar á þessum degi og í verðlaun eru inneignir á veitingastöðum á Akranesi.

Hér fyrir neðan eru myndir frá árinu 2019 frá Blikksmiðju Guðmundar.