Karlalið ÍA vann góðan 2-0 sigur gegn Grindavík í Lengjubikarkeppni KSÍ í dag – en leikið var í Akraneshöllinni.
Ungir og efnilegir leikmenn úr röðum ÍA sáu um að skora mörkin. Það fyrra gerði Ármann Finnbogason og Daníel Jóhannesson skoraði síðara mark ÍA í leiknum. Þeir komu báðir inná sem varamenn í þessum leik. Ármann er 18 ára og Daníel er aðeins 15 ára gamall.
Mörkin er hægt að sjá í útsendingu ÍATV hér fyrir neðan.
Þetta var fjórði leikur ÍA í þessari keppni og er liðið með tvo sigra og tvo tapleiki. ÍA leikur næst gegn KR á útivelli þann 8. mars.
Á síðustu leiktíð náði ÍA að halda markinu hreinu í aðeins tveimur leikjum af alls 27 leikjum liðsins í Bestu deild karla – og eru það töluverð tíðindi að ÍA fái ekki á sig mark í mótsleik.
ÍA og Grindavík eiga eftir að mætast tvívegis á Íslandsmótinu á næstu leiktíð en liðin eru bæði í næst efstu deild Íslandsmótsins, Lengjudeildinni.
Liðin mætast í 1. umferð Íslandsmótsins á Akranesvelli þann 5. maí.