Á næstu misserum verður mikið um framkvæmdir við C-álmu Gundaskóla. Akraneskaupstaður gerði nýverið samning við fyrirtækið Sjammi ehf. um umfangsmiklar breytingar á elstu byggingu skólans.
Í tilkynningu frá Akraneskaupstað kemur fram að mikil áhersla sé lögð á öryggisráðstafanir á byggingasvæðinu – þar sem að starfsemi skólans verður óskert á meðan framkvæmdum stendur.
Alls verða 8 kennslustofur settar upp á lóð Grundaskóla á meðan framkvæmdum stendur. Uppsetning á þessum gámaeiningum á að vera lokið þann 15. apríl. Einingarnar koma frá Litháen og eru þær fullbúnar. Þróttur ehf., HM Pípulagnir og Rafstöðin koma einnig að verkefninu við lausu kennslustofurnar.
Eins og áður segir skrifaði Akraneskaupstaður undir samning við Sjamme ehf. um framkvæmdir við C-álmu skólans. Kostnaðaráætlun nam um 1,2 milljörðum kr. en tilboð Sjamma ehf. var rétt tæplega 1,39 milljarða kr. Tvö tilboð bárust í verkið og var E. Sigurðsson með tilboð upp á tæplega 1,6 milljarða kr.
Miklar breytingar verða á ásýnd byggingarinnar sem mun stækka töluvert eða úr 2320 fermetrum í 2750 fermetra. Gert er ráð fyrir að 1. hæðin verði tilbúin haustið 2024 og heildarverklok verða í lok ársins 2024.
Efsta hæðin, sú þriðja, fær hærra þak, nýtt andyrri verður byggt að vestanverðu og byggt verður yfir eldri útistiga.
Á suðurhlið verður anddyri stækkað og byggt nýtt á norðurhliðinni. Innandyra verður allt endurnýjað og endurbyggt.
Salerniskjarnar verða færðir til og lögð verður áhersla á björt rými, með góðri hljóðvist og góðu aðengi.