Spurt og svarað um væntanlega uppbyggingu á hóteli, baðlóni og heilsulind á Jaðarsbakkasvæðinu

Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand.

Í henni felst að byggt verði hótel, baðlón og heilsulind á svæðinu.

Ýmsar spurningar hafa vaknað varðandi uppbygginguna og hefur Akraneskaupstaður svarað eftirfarandi spurningum um verkefnið. 

Talað er um uppbyggingu á 80-120 íbúðum. Verða þessar íbúðir á Jaðarsbakkasvæðinu?

Skipulag svæðisins verður unnið í miklu samráði við alla hlutaðeigandi og tekið tillit til þess sem fyrir er. Eins og tiltekið er í viljayfirlýsingu mun Akraneskaupstaður úthluta Ísold lóðum fyrir 80-120 íbúðir, þar sem Akraneskaupstaður hefur ákvörðunarvald um hvar lóðunum er úthlutað. Í upphafi mun hugmyndavinna fara fram þar sem meðal annars verður velt upp hvort rýmd svæðisins bjóði upp á íbúðabyggð, en ekkert er ákveðið í þeim efnum. Markmiðið er að vera með fjölbreyttar íbúðagerðir, fyrir ungt fólk að festa kaup á fyrstu íbúð, fjölskyldufólk og eldra fólk sem leitast við að minnka við sig.

Tekur ÍA/KFÍA einhverja fjárhagslega áhættu með því að vera með aðild að samningum?

 

Nei – ÍA leggur ekki fram neina beina fjármuni og hagsmunir þess eru tryggðir í viljayfirlýsingunni. Með aðild ÍA / KFÍA að samningnum er jafnframt verið að leggja drög að því að íþróttasvæðið standist nútímakröfur og feli í sér mun betri aðstöðu fyrir íþróttastarf á svæðinu.

 

Er hætta á því að það verði ekki boðlegur knattspyrnuvöllur til að spila á meðan á framkvæmdum stendur?

 

Það er möguleiki að á framkvæmdatíma þyrfti ÍA að spila annars staðar einhverja leiki á tímibili – framkvæmdir verða þannig stilltar af að sú röskun verði eins lítil og kostur er. Til mikils er þó að vinna því með framkvæmdunum er verið að tryggja mun betri aðstöðu fyrir íþróttastarf á svæðinu.

Hvernig verður aðkoma að hóteli/spa og eykst umferð mikið?

 

Hönnun á hóteli og baðlóni verðu unnin samhliða deiliskipulagi og verður kynnt þegar skipulag liggur fyrir. Aðkoman verður ekki í gegnum íbúðagötur heldur verður leitast við með deiliskipulagi að tryggja umferðaröryggi íbúa. Jafnframt mun verða hugað að bílastæðum fyrir svæðið.

 

Hversu margar íbúðir mun byggingaraðilinn byggja annars staðar á Akranesi?

 

Það á eftir að koma í ljós en það er eftirspurn eftir húsnæði á Akranesi og jákvætt að fá inn öflugan aðila til aðbyggja íbúðir, sér í lagi með það að markmiði að byggja fjölbreyttar íbúðir sem hentiaólíkum hópum.

 

Hverjir standa á bak við verkefnið og fjármagna það?

 

Fasteignafélagið Ísold stendur að og ber ábyrgð á verkefninu. Meðal verkefna félagsins er uppbygging Jórvíkurhverfisins á Selfossi (www.jorvik800.is) og Brúarfljót, uppbygging geymslu- og iðnaðarhúsnæðis í Mosfellsbæ (www.bruarfljot.is). Ísold er að fullu í eigu Bull Hill Capital.

 

Fá framkvæmdaaðilar afslátt af gatnagerðargjöldum?

 

Það eru engin ákvæði um slíkt í viljayfirlýsingunni og sérstaklega kveðið á um greiðslu gatnagerðar- og byggingaréttargjalda til að tryggja jafna stöðu byggingaraðila á Akranesi.

 

Ef ekki er staðið við skilyrði um uppbyggingarhraða og önnur atriði – hvernig getur sveitarfélagið brugðist við?

 

Í viljayfirlýsingunni eru tímamörk og ef þau eru ekki uppfyllt fellur hún úr gildi.

Hefur verið kannað hvort það er eftirspurn eftir hóteli á Akranesi?

 

 Mikil eftirspurn er eftir gistingu allt í kringum höfuðborgarsvæðið og ljóst er að Akranes býður upp á ýmsa möguleika fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda. Hugmyndir um að byggja hótel í tengslum við uppbyggingu á frábærri íþróttaaðstöðu er einstakt tækifæri. Fyrsti fasi verkefnisins er að vinna að stefnumótun í ferðamálum fyrir Akranes. Með uppbyggingu sem þessari verða innviðir Akranesskaupstaðar enn sterkari og hægt að halda úti fjölbreyttara þjónustuframboði en áður.

 

Ísold og Akranesk. ætla að vinna að stefnumótun í ferðamálum fyrir Akranes. Hvenær og hvernig verður það unnið?

 

Viljayfirlýsing tilgreinir að aðilar muni setja á stofn starfshóp sem mun á næstu 8 vikum draga fram áskoranir og tækifæri sem ferðamál á Akranesi standa frammi fyrir og móta stefnu og markmið út frá þeim. Síðan verður aðgerðaáætlun sett fram þar sem sundurliðað er það sem snýr að m.a. hóteli, baðlóni, heilsulind og íþróttamannvirkjum á svæðinu.

 

Hvernig er starfshópur um stefnumótun ferðaþjónustu á Akranesi skipaður og fá íbúar að segja sína skoðun?

 

Ákveðið hefur verið að Ísold muni skipa 2 fulltrúa, Akraneskaupstaður mun skipa 2 kjörna fulltrúa og Íþróttabandalagið 1 fulltrúa og Knattspyrnufélagið 1 fulltrúa. Í gegnum vefsíðuna „Okkar Akranes“ má gera ráð fyrir að íbúar á Akranesi verði spurðir spurninga sem starfshópurinn nýtir sér. Þá liggja þegar fyrir ýmis gögn sem starfshópurinn mun nýta sér, t.d. hugmyndasamkeppni um Langasandssvæðið þar sem 3 góðar hugmyndir litu dagsins ljós. Jafnframt er fyrirhugað að halda íbúafund þegar starfshópur hefur lokið störfum og hugmyndirnar verða kynntar á þeim fundi.

 Hvað þýðir að aðilar munu vinna saman að aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu fyrir svæðið?

 

Í viljayfirlýsingunni er þessi ferli lýst nokkuð vel, en þessar breytingar þarf að gera þannig að verkefnið sé mögulegt. Mjög margir aðilar koma að svona verkefni og það getur verið flókið að sjá fyrir öll þau úrlausnarefni sem geta komið upp, eins og lýst er t.d. varðandi náið samráð við Veitur um vatn á svæðinu. Mjög mikilvægt er að allt sé unnið í nánu samstarfi við þá aðila sem nýta svæðið í dag; það eru knattspyrnufélagið, Íþróttabandalagið, Sundfélag Akraness sem og allir Skagamann sem nýta sér þessa útvistarperlu á hverjum degi.

Hvenær munu Skagamenn fá að sjá fyrstu hugmyndir um hvernig svæðið kemur til með að líta út í framtíðinni?

 

Gert er ráð fyrir í viljayfirlýsingunni að innan 6 vikna frá undirritun muni skipulagslýsing sem og nánari lýsing á verkefninu liggja fyrir.

 

Hvað gerist ef Ísold hættir við verkefnið?

 

Samkvæmt viljayfirlýsingu eru réttindi Ísoldar ekki framseljanleg sem þýðir að Ísold getur ekki áframselt öðrum aðilum verkefnið sem hugsanlega telja sig ekki vera skuldbundna samkvæmt þessari viljayfirlýsingu eða öðrum samningum.