Viðburðaríkt starfsár og mikil aðsókn hjá Fab Lab á Breiðinni

Það var mikið um að vera á fyrsta heila starfsári Fab Lab Vesturlands í nýsköpunarsetrinu á Breið á Akranesi. Mikið var um heimsóknir þar sem að gestir fengu að kynna sér tækjakosti og möguleikum smiðjunnar. 

Tæplega 5400 heimsóknir voru í Fab Lab Vesturlands á árinu 2022. Framundan er vinna við að fullklára uppsetningu smiðjunnar, sem og kaup á tækjum og tólum til að auka mögleika smiðjunnar í kennslu og stafrænni nýsköpun. 

Á árinu voru valáfangar fyrir unglingastigið í Brekkubæjarskóla, áfangar í FVA í skapandi starfi og Endurhæfingarhúsið Hver var með fasta tíma í hverri viku sem voru vel sóttir. 

Þetta kemur fram í árskýrslu Fab Lab sem má lesa í heild sinni hér. 

Markmiðið með starfsemi Fab Lab smiðjanna er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk – og tækninámi í grunn og framhaldsskólum, auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfi til nýsköpunar í námi og atvinnulífi.